Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Þannig var...

...að ég er að jafna mig eftir smá aðgerð sem ég þurfti að fara í og það vill svo vel til að það fer saman við það að ég er líka að bíða eftir að byrja í sumarvinnunni Smile Eníveis.... það fer einatt saman hjá mér að vera orðin sæmilega hress eftir veikindi og ferlega pirruð. Ég var til dæmis farin að þróa það að vera virk á kommentakerfinu feis to feis. Það fer þannig fram, fyrir ykkur sem ekki lentuð í mér, að ég læt alla heyra það algjörlega óþvegið. Ef til dæmis gengi hjá ungur drengur í frakka með beltið ólað upp að herðablöðum myndi ég ekki hika við að opna gluggann og góla á eftir honum að hann væri alls ekki smart.... eða ef ég keyrði fram hjá bíl með stýrið vinstra megin - þá skrúfaði ég niður rúðuna og galaði á bílstjórann að stýrið væri vitlausu megin... En málið í þetta sinn var að þrátt fyrir sæmilega uppbyggingingu á pirringi og leiða var ég alls ekki orðin nógu hress til að gera nokkuð af viti. Ég er að segja ykkur, svæfing fer illa með fólk.

 

2013-05-22 15.15.54

Hvað gera konur þá? Fara á bókasafnið - vitaskuld. Það rifjaðist nefnilega upp fyrir mér sagan af fólkinu sem bjó á Heiðinni í mörg ár. Ég hélt að vísu lengi vel að karlinn hefði búið þar einn og það var ekki fyrr en nýlega að ég vissi að konan hans hefði búið þar með honum. Þau fluttu þangað úr Blesugrófinni þegar borgin lét leggja veg upp í Breiðholt og húsið þeirra var fyrir. Borgin bauð þeim blokkaríbúð í skiptum fyrir húsið en karlinn var þrjózkari en allt sem þrjózkt er og ákvað að þau flyttu frekar upp í fjall.... Eitthvað á þessa leið hljómaði sagan sem ég heyrði um þau á sínum tíma. Ég las söguna í bókinni og hún hreyfði svo við mér, sérstaklega snerti mig saga Blómeyjar, en það hét hún kona Spámannsins á Fellinu, að mér fannst ég þurfa að fara uppeftir og reyna að finna rústirnar af bænum sem hann byggði þeim. Fjallganga er líka ágætis mælikvarði á það hvar kona er stödd í ferlinu að ná heilsu.  

Ég mæli með því að þið lesið þessa bók. Hún heitir Mannlífsstiklur og sagan heitir Spámaðurinn á Fellinu eftir Ómar Ragnarsson. Ég sendi Ómari náttúrulega póst þegar ég fór að grúska í þessu - mikill er máttur internetsins - og hann sagði mér líka að hann hefði tekið hálftíma viðtal við Blómey, þetta viðtal væri til niðr´í RÚV og hefði einhverra hluta vegna aldrei verið sýnt.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég væri meira en til í að sjá það viðtal þannig að ef þið þekkið einhvern í RÚV......

Á leiðinni heim heyrði ég svo í fréttum að fólk væri heimskara en það var á Viktoríutímabilinu - ástæða þessarar forheimskunnar væri að konur með háa greindarvísitölu eignuðust færri börn en áður og það, gott fólk, er að öllum líkindum ástæðan fyrir því að ég á bara tvö..... 

2013-05-22 15.11.10

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.