Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012
31.7.2012
Ber allt árið!
Ég kom við í vermireitnum mínum í morgun og kippti með mér pattarlegum jarðarberjum út á ab mjólkina.
Hér til hliðar er mynd af þeim fyrir vini mína Halldór Tuðs og Cesil
Ég er að lesa Brekkukotsannál, svona í tilefni þess að skólinn er að byrja, og þar datt ég aldeilis ofan á gott ræktunarráð. Í sögunni þeirri kemur nefnilega fyrir gamall maður sem staðsetti járnhlemm í kartöflugarðinum hjá sér því hlemmurinn drægi að sér hitann úr sólinni... Snilldarráð og ég er staðráðinn í að næsta vor fylli ég garðinn umhverfis vermireitinn af hlemmum - nota bara hlemmana af holræsunum og fæ helling af jarðarberjum.
Talandi um skólann þá get ég ekki látið hjá líða að nefna að ég tók saman gömlu skólabækurnar frá í fyrra og arkaði í A4 - einu ritfangaverslunina hér austan heiða - og ætlaði að kanna hvað ég fengi af skólabókum sem ég þarf að nota í vetur og komst þá að því að A4 selur ekki eina einustu skólabók! Ekki einu sinni kápulausar kiljur! Þar fór nú auglýsing allt fyrir skólann fyrir lítið.
Hnuss hvað ég varð hneyksluð Ég varð hreinlega að fá mér fleiri jarðarber til að draga úr hneyklan minni
Það lítur allt úr fyrir góða berjasprettu - hvort sem það eru jarðarber eða önnur ber - og ég stefni hraðbyri á berjamó, jafnvel um næstu helgi. Ég skelli þeim svo bara í frystinn og borða ber fram að áramótum. Allavega!
Góðar (berja)stundir.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.7.2012
Me and my friend Ben...
.....skaust á Stykkishólm í gær að sækja Dúlludúskinn. Á leiðinni krufði ég samband karla og kvenna og komst að því að hamingja karla er alfarið komin undir konum. Segi ykkur kannski nánar af því síðar
Þegar ég var við Fáskrúðarbakka hringdi vinnufélagi minn í mig og spurði mig hvar ég eiginlega væri. Ég sagði honum að bóndinn á Rauðkollustöðum hefði beðið mig að koma og slökkva eldana sem loguðu í mónum hjá honum og svo ætti ég stefnumót við Ben Stiller í Hólminum klukkan sautjánhundruð - sharp.... Maður lýgur að fleirum en fimm ára og gerir nú annað en stemma af lánadrottna sjáiði til
Ég tók upp tvo puttaferðalanga við Vegamót. Þeir voru á leiðinni á Grundarfjörð að skoða Kirkjufell og ætluðu síðan að kíkja á Snæfellsjökul. Ég sagði þeim að Ben væri á Stykkishólmi en þeim var undarlega alveg sama. Þeir sögðu mér að þeir væru frá Eistonia og ég flissaði með sjálfri mér alla leið yfir nesið. Sat samt á mér að biðja þá að syngja.....
Rosalega fallegt í Stykkishólmi. Ég skokkaði upp á Stykkið - eða hvað það nú heitir bjargið fyrir ofan höfnina og þvílíkt útsýni - maður minn. Ég stakk því að Dúskinum að hann fyndi sér skipstjóradóttur að búa með í Hólminum. Hann tók fálega í það enda miklu skemmtilegra að búa með Mömmu sinni
Hann sagði mér hinsvegar frá sérvitri konu sem býr niðri við sjóinn í stóru, fallegu húsi hvar hundurinn hennar býr í íbúð á neðri hæðinni..... Ég sagði honum að ég hefði nú alltaf ætlað að vera þessi kuldalega kéddling á klöppinni en ef einhver önnur væri búin að byggja húsið gæti ég svosem alveg búið þar líka. Við kíktum aðeins á nunnurnar og Dúskurinn sagði mér að hann hefði í fyrsta skipti á ævinni séð nunnu þarna. Já.... maður lærir margt á sjónum ;)
Á leiðinni heim vorum við að hlusta á fréttir þar sem m.a. kom fram að öryrkjabandalagið ætli að kæra forsetakosningarnar og enginn vissi hvernig ætti að snúa sér í því. Einkasonurinn hlustaði á fréttaflutninginn og sagði: "Ha... heyrði ég rétt....?" "Já, já," sagði ég og útskýrði fyrir honum að fötluðum fyndist á rétti sínum brotið með fyrirkomulagi kosninganna.
Og þá sagði Dúskurinn þau fleygu orð sem sannfærðu mig um, á einu augabragði, að hann væri svo miklu, miklu skyldari elstu systur minni - sem vildi alls ekki að Bessastaðir yrðu útbíaðir í kúkableyjum - en mér.
Hann sagði nefnilega af mikilli sannfæringu: "Ég vissi ekki að fatlaðir hefðu kosningarétt - ég meina ef þú getur ekki exað sjálf/ur þá hefur þú ekkert í kosningaklefann að gera!"
Ég flissaði alla leið í Borgarnes og þakkaði Guði fyrir að formanni öryrkjabandalagsins hefði ekki verið boðið í þennan bíltúr.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
3.7.2012
Ég fékk mér rúsínur...
...í kaffitímanum - sem væri nú kannski ekki í frásögur færandi - nema fyrir það að ein rúsínan stóð í mér. Þar sem ég stóð, blá í framan og hóstaði um leið og ég reyndi að ná andanum, velti ég tvennu fyrir mér; annars vegar því hvort ég ætti að hringja í Sigrúnu, bekkjarsystur mína úr Keili frá því í vetur, en hún er þekkt fyrir að láta það sem vind um eyrun þjóta þegar fólk er að kafna í návist hennar - allavega þegar hún er í prófi Við hlógum ekki lítið að því í vetur þegar ein af okkur, ég nefni engin nöfn en fyrsti stafurinn er Svava mætti með Bananakúlur í próf og svelgdist svo á einni - sat nálægt Sigrúnu og hún tók ekki eftir því þegar hin blá í framan reyndi að vekja athygli einhvers á því að hún væri nánast að kafna.....
Hitt sem ég var að spá þarna sem ég stóð og velti fyrir mér möguleikunum á að Sigrún áttaði sig ef ég hringdi í hana blá í framan var hvort það hefði kannski verið betra fyrir mig að fá mér klaka. Í alvöru - hvort haldiði að gerist fyrr - maður kafni af klaka eða hann bráðni - og þá er ég að tala um svona venjulega hómmeid ísbakka klaka.
Ætli það hafi verið gerð einhver rannsókn á þessu?