Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011
31.12.2011
Ég vaknaði í morgun...
...sem betur fer og ákvað að fara í göngu með Ljónshjartað og Hrekkjusvínið áður en sprengjubrjálæðið hæfist fyrir alvöru. Klæddi mig í öll útifötin mín opnaði hurðina - og framan í mig dinglaði sjónvarpsloftnetið sem hafði fleygst fram úr festingum sínum þegar skriðjökullinn á þakinu lagði land undir skafl. Jökullinn sjálfur hafði síðan endað för sína á pallinum hjá mér og í tröppunum. Ég yppti öxlum, svona með sjálfri mér, og hugsaði - den tid, den sorg - og lagði af stað í myrkrinu. Gekk sæmilegan hring með vitleysingana ýmist fyrir framan mig eða aftan. Lét nánast keyra mig niður þegar ég fór yfir götu, aumingja bílstjórinn ætlaði að stoppa fyrir mér en hálkan var svo gríðarleg að hann sveiflaðist bara fram og til baka á meðan hann nálgaðist mig óðfluga þar sem ég stóð nánast á miðri götunni. Ég sá mitt óvænna og skautaði þrjú skref afturábak og bílstjórinn náði að beygja áður en bíllinn stoppaði. Bílstjórinn skrúfaði niður rúðuna og ég hugsaði: oó... nú ætlar hann að skamma mig fyrir að vera nánast endurskinslaus úti á miðri götu í svarta myrkri og fljúgjandi hálku - og setti mig í bardagaham ;) en hann gólaði bara: Góðan daginn og fyrirgefðu ....eins og þetta hefði verið honum að kenna.
Ég komst síðan heim aftur blaut og köld, datt upp tröppurnar... já, já það er hægt.... og uppgötvaði þegar ég var komin inn að ég hafi týnt báðum keðjunum undan skónum. Þá settist ég niður og hló, þrátt fyrir að mig langaði mest til að grenja, en eins og alþjóð veit þá grenja ég bara úr frekju, en ég meina hvernig átti ég að komast í sturtu með hálfmálað baðherbergið, jamm ég nefnilega keypti meiri málningu og byrjaði að mála baðherbergið í gær, svo sá ég fram á að geta ekki horft á skaupið með loftnetið ullandi á mig fyrir framan stofugluggann. Ég grenjaði að vísu seinna í morgun - en það var út af allt öðru og mér dettur ekki í hug að segja ykkur hvers vegna
Já, dagurinn byrjaði brösuglega - en nú er mömmusinnardúlludúskur búinn að moka tröppurnar, mála baðherbergið og er að ná í skrúfur til að festa loftnetið.
Allt horfir nú til betri vegar. Ég komin í sparifötin og er á leið að syngja nokkra jesúslagara og kalkúnninn ætlar að elda sig í ofninum á meðan.
Ég þakka ykkur fyrir árið sem er að líða og óska ykkur friðar og fögnuðar á nýju ári