Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011
14.11.2011
Ég fékk mér nýtt gæludýr í kjallarann.
Hún er lítil og brún og nötrar allavega jafnmikið og ég þegar við rekumst hvor á aðra, sem uppfyllir kannski ekki alveg mín skilyrði um gæludýraeign enda veit ég ekki hvað hvort hún er búin að flytja lögheimilið sitt en ég er með nagandi samvizkubit yfir gildrunni sem ég laumaði að henni áðan. Ég setti samt súkkulaði í hana. Ég vona bara að hún deyji snögglega og finnist súkkulaðið gott
Ég efast hins vegar um að ég geti fjarlægt sönnunargögnin, vona bara hálft í hvoru að hún fari frekar út um gluggann.... og hafi súkkulaðið með sér. Hugsanlega kæmi hún þá bara aftur og með vini sína með sér - ekki vil ég það.....
Og þá yfir í allt aðra og miklu skemmtilegri sálma. Ég fór í mjólkurbúðina áðan, þar voru tveir Færeyingjar að spyrja afgreiðsludrenginn um hitt og þetta og af því að mér er svo eðlislægt að skipta mér af þá náttúrulega gerði ég það umsvifalaust. Þeir voru að spyrja um bílaleigu og hvar þeir gætu keypt sænguföt og hitt og þetta. Við svöruðum eftir beztu vitund öllum þeirra spurningum og það restaði á því að ég sagði við þá að ég væri á leið í humátt og þeir mættu sitja í ef þeir vildu. Ég hef sjaldan séð ánægðari Færeyinga enda ekki séð marga svosem - en þegar ég spái í það þá hafa þeir allir verið ánægðir þannig að hugsanlega er þetta landlægur andskoti
Þegar við svo vorum komin út í bíl þá vildu þeir endilega fá að vita eitt að lokum eins og mér þyki ekki vænt um Færeyinga.... enívei þeirra hinsta ósk var að fá að vita hvar fyrirtækið sem framleiðir plastbikarar og flöskur væri staðsett. Ég horfði á þá smástund og sagði svo: "Ég vinn þar"
Þeir gátu ekki á heilum sér tekið - með færeyskum hreim og allt
Yndislegir
12.11.2011
Hugleiðing um karlmenn og feminisma
Undanfarnar vikur og mánuði hef ég uppgötvað að karlmenn, með örfáum undantekningum þó, fara í taugarnar á mér. Það sem veldur er aðallega sá misskilningur þeirra að þeir séu gjöf Guðs til alheimsins.
Þar sem þeir standa og bulla tóma steypu með bumbuna lafandi yfir beltið og halda um leið að þeir færi óhrekjanleg sannindi og líti út eins og grískir guðir, stend ég mig ítrekað að því að ranghvolfa augunum innra með mér. Þar kemur mitt góða uppeldi sterkt inn.
Ég hef áhyggjur af þessu - ég verð að segja það. Og þessar örfáu undantekningar? Annað hvort kvæntir, skyldir mér eða hommar. Jafnvel allt þetta
Ég velti því fyrir mér hvort ég sé öfgafeministi eða hommi. Með fullri virðingu fyrir hommum. Sumir af mínum bestu hommum eru vinir
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)