Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Árans beinið.

Eins og ykkur flest rekur minni til stytti ég mér leið niður í kjallara um daginn og uppskar brotið rifbein og nokkra afar fallega marbletti. Sem í sjálfu sér var ekki slæmt þó það hafi á engan hátt verið gott og ég ráðlegg engum að leika þetta eftir. Alveg svona..... "don´t try this at home"

Ég hef að sjálfsögðu gert eins og læknirinn sagði mér og haft mig hæga....... Í gærkvöldi fór ég til dæmis út og sló heimatúnið - mjög hægt. Ég kom svo inn hölt og skökk og vaknaði í morgun eins og gömul kona. Sem ég alls ekki er!

Það sem mér finnst eiginlega skrýtnast við að rifbeinsbrotna er hvað það hefur afgerandi áhrif á lærið aftanvert.

Ég er samt öll að koma til aftur, enda skellti ég á mig bleikum varalit í morgun og skundaði út að syngja fjórraddað . Tókst bara nokkuð vel upp, þó ég segi sjálf frá enda gerir bleikur varalitur ýmis afrek sönglega séð. Ég er að spá í að endurnýja birgðirnar og fara út aftur þó ekki endilega til að syngja nema kannski með sjálfri mér og Ljónshjartanu.

Góðar stundir og gleðilega þjóðhátíð  Wizard


Eltihrellir

Ég var inni á síðunni hennar Garúnar einn daginn fyrir eurovision. Þar var m.a. verið að tala um danska lagið og ég sletti því fram sisvona eins og mér einni er lagið að það lag minnti mig svo á lagið með Police - Every breath you take.......

Mér fannst ekkert að því enda sagði Ingimar Eydal hér um árið að í öllum lögum væri að finna Gamla Nóa. 

Það var athugasemdin sem kom á eftir minni sem hefði getað komið mér í uppnám - ef ég væri þannig týpa sem ég alls ekki er og hélt því ró minni.... en athugasemdin hljóðaði eitthvað á þá leið að: Oj Þetta lag væri lag stalkersins og ef það yrði gert vídeó, eða tónlistarmyndband - eins og við kjósum að kalla það hér í sveitinni (innskot höfundar), þá yrði það um mann á glugga W00t Ég sá fyrir mér jólasveininn........

Enívei - þetta vakti mig til umhugsunar verandi textaspákona - sem er kona sem finnst gaman að rýna í texta Tounge Ég leitaði lagið uppi á youtube og viti menn. Þetta er alveg ekta eltihrellir.

Ég vona að ég hafi á engan hátt eyðilagt fyrir ykkur þetta lag - sem var mikið spilað hér í den þegar maður var að vanga við sætu strákana - né hugmyndina um jólasveininn.

Og talandi um sætu strákana. Hvað varð eiginlega um þá?

Njótið helgarinnar InLove

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.