Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010
22.11.2010
Gigg í göngutúr
Ég fór út með vitleysingana þrjá snemma í gærmorgun. Fílaði mig pínu pons eins og ég væri á hundasleða með kött í eftirdragi þangað til ég komst af malbikinu og út á malarveginn meðfram ánni.
Það var fantafrost, fullt tungl og stjörnurnar tindruðu á himninum, máninn merlaði á yfirborði árinnar einna líkast því að stjörnurnar hefðu ákveðið að tylla sér þar eitt augnablik. Mér leið eins og ég væri stödd í jólakorti.
...og þá fór ég að hugsa um jólaskreytingar. Fólk skreytir á ýmsan hátt. Sumir láta duga að setja upp eina og eina seríu og jólastjörnu eða aðventuljós út í glugga. Aðrir eiga kynstrin öll af jólasveinum sem þeir stilla upp úti í garði, eða í stiga á leiðinni upp á þak. Einn og einn á jafnvel Rúdólf með rauða nefið og hreindýrasleðann.
Enn aðrir setja upp helgileik í garðinum hjá sér með ðí happí familí - Jósef, Maríu og Jesúbarninu í jötunni og allt svosem gott um það að segja.........
....en það sem ég hef aldrei skilið er þegar fólk plantar jólasveinum, snjókörlum, Rúdólf, hreindýrasleðanum og fyrrnefndri fjölskyldu ásamt vitringunum þremur í garðinn sinn.
Mér líður alltaf eins og ég sé stödd í ruglingslegu ævintýri þegar þannig skreytingar rekur á fjörur mínar!
En hundarnir voru ánægðir með sín ævintýri í göngutúrnum í frostköldu myrkrinu og litli Vargurinn líka - enda ábyggilega yfrið nóg af músum á kreiki í móanum.
Góðar stundir
.....rétt´upp hend sem er ekki farinn að söngla síríus konsum lagið
12.11.2010
....og tækninni fleygir fram.
Hver notar eiginlega fax? .....var ég spurð í vinnunni í dag. En spáiði í snilldina! Maður rennir blaði í gegnum maskínu úti á landi og það kemur út úr annarri maskínu í Reykjavík!
Hvað dettur þeim í hug næst?!?
Ég er allavega upprifin yfir þessari uppfinningu og get alls ekki hætt að nota hana við hvert tækifæri þannig að svarið við spurningunni er líklega: 'Miðaldra kona úti á landi.' Hins vegar er ég fullviss um að internetið sé bara bóla sem hjaðnar og verður að engu fyrr en varir.
Ég er stundum að spá í hvar öll sms-in lendi sem skila sér ekki á rétta staði. Eru þau bara sveimandi um? Gæti maður hugsanlega lesið annarra manna sms - sem eru á ferðinni fram og aftur í einhverri óendanlegri vídd í umhverfinu - ef maður kæmi sér upp réttum græjum? Kannski einhverskonar gsm texta gleraugum? Spennandi.......
Hugsanlega eru þó þessi sms verulega óspennandi: "Kem ekki í mat" Eða: "Er á leiðinni" Jafnvel: "Ertu búin að virkja Atlantsolíu lykilinn þinn?"
Þá væri nú kannski meira spennandi að vita af hverju viðkomandi ætlar ekki að vera í mat. Er framhjáhald í gangi? Á að borða með einhverjum öðrum eða er maturinn bara verulega vondur heima?
Ég sá í Fréttablaðinu í dag að konum þykir deitmenning á Íslandi ekki á háu stigi. Ég gæti ekki veirð meira sammála. Af hverju hringir aldrei fallegur karlmaður og býður mér út að borða eða gefur mér rósir? Eða bæði? Annars er ég á leið í Dömuboð í kvöld og hlakka mikið til.
Og þá yfir í allt annað. Áttiði ykkur á dagsetningunni? 121110! Góður dagur til að gifta sig
Lifið heil
8.11.2010
Gaurinn niðri...
... er ágætis náungi.
Hann flutti inn, ásamt fjölskyldunni, síðla sumars og síðan hefur hann staðið í stanslausum breytingum. Hann er búin að brjóta niður alla milliveggi og er að frá morgni til kvölds með heavy duty verkfæri. Við erum að tala um allskyns borvélar, steinsagir, brothamra og fleira og fleira sem ég hreinlega kann ekki að nefna, gott ef það leynast ekki steinsmugur þarna inni á milli....... Brotahaugurinn í garðinum stækkar jafnt og þétt í réttu samræmi við hvað veggjunum fækkar
Einu mínar áhyggjur eru þær að hann sé búinn að breyta svo rækilega þarna niðri að hann endi í loftvarnarbyrgi og ég á jarðhæðinni - en það er bara hans vandamál....
Ég meina hvursu miklu er hægt að breyta í ríflega sextíufermetra íbúð? En ég er staðráðin í að halda áfram að brosa til hans og heilsa honum fallega vegna þess að klukkan fimm á hverjum degi dettur allt í dúnalogn þarna niðri og heyrist ekki meir fyrr en dagur rís á ný. Svo spillir ekki fyrir honum að hann á krúttlegan fimm ára son sem kemur stundum að heimsækja mig
Annars er ég ennþá með stjörnur í skónum og ekki laust við að ég öfundi sjálfa mig að hafa komist á sjóvið hans Palla á föstudaginn var
Lifið í lukku
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.11.2010
Ókeypisdagurinn.....
.....var aldeilis ekki lagður upp sem slíkur. Ég meina ég fór í hraðbankann og allt og var virkilega tilbúin að borga fyrir allt sem á daga mína drifi........
....en margt fer öðruvísi en ætlað er.
Safnahelgi á Suðurlandi stendur yfir og við systurnar ásamt mömmu og Heiðdísi lögðum land undir fót og fórum á Eyrarbakka - hvar Heiðdís sýndi okkur hvar hún kom undir ásamt fleiri sögum m.a. að ef ekki hefði verið fyrir komu bretanna hefðu foreldrar hennar ekki haft efni á henni........ Við eigum bretum greinilega ýmislegt að þakka..... Spurning hvort ég fer ekki að skrifa þá með stóru béi?
Við byrjuðum á sightseeing tour í búgarðarbyggðinni og reyndum að skilja af hverju fólk vill búa þarna niðri í örbirgð. Ég áttaði mig þegar við snérum við og snæviþakin fjallasýnin blasti við. Væri nánast tilbúin að fórna öllu mínu sparifé í þetta útsýni............ ætti ég þá eitthvað
Héldum síðan sem leið lá niður á StokksEyrarbakka, fengum rúgbrauð í Húsinu á Eyrarbakka, kaffi og smákökur hjá Elvari í Hólmaröst ásamt minimálverkum og til að toppa ókeypisdaginn hringdi ákaflega almennileg kona frá blaðinu sem enginn vill viðurkenna að vera áskrifandi að og bauð mér ókeypis áskrift í mánuð. Svei mér þá....... ég var næstum búin að spyrja hana hvernig hún vissi að ókeypisdagurinn væri í dag......
Ókeypisdagurinn hófst annars ósköp venjulega. Ég skokkaði extra stóran hring á golfvellinum með Ljónshjartað mér við hlið - það er svo sjaldan sem maður finnur svona vel fyrir sjálfum sér. Mér fannst ég geta hlaupið nánast á heimsenda án þess að blása úr nös. Kattarósóminn stakk okkur af en við náðum honum aftur á bakaleiðinni.
Ég get alveg lofað ykkur því að ég var extra ókeypis flott - steingrá í framan - með maska made of Eyjafjallajökull á buxum og brjóstahalda einum fata áður en Ókeypisdagurinn hófst fyrir alvöru...................................
...hjá mér
Ef ég bara ætti mynd hand' ykkur
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.11.2010
Rautt er litur ástarinnar.
Ég komst, allsendis óvænt, á tónleika með mínum uppáhaldssöngvara í kvöld vegna þess að Heiðdís, vinkona mín, er gvöði sé lof meira fyrir eldri karlmenn en unga og valdi því þá eldri í kvöld
Ég hef sagt ykkur söguna af því þegar ég bjó með Palla? Ég er nánast viss um að ég er eina konan sem hefur búið með honum...... Ef ég hef ekki sagt ykkur söguna hikið þá ekki við að fylla út eyðublað í þríriti við útganginn og ég skal segja ykkur frá því næst þegar ég er í stuði
....og þegar ég spái í það er Palli líklega eini maðurinn sem ég hef getað búið með... Hvað segir það ykkur um mig?
Páll Óskar geislaði á tónleikunum í kvöld - bókstaflega - bæði útvortis og innvortis.
Í lok tónleika feyktust yfir mig litlu marglitu miðarnir - hvað heita þeir nú aftur.....? sumir voru meira að segja glimmer...... Ég sver það - þetta var eins og að vera stödd í ævintýri!
Ég fann einn í brjóstahaldaranum á leiðinni heim. Vitaskuld var hann rauður!
Fílgúd
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)