Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009
24.6.2009
Jólin jólin......
Mýflugurnar við Ölfusá hafa komist að því að í æðum mínum rennur afar sjaldgæfur ljúffengur blóðflokkur, kominn af Kóngafólki í Evrópu. Stóra Káið í kóngafólki er EKKI stafsetningarvilla!!
Þær ráðast á mig í flokkum og bíta mig eins og þær haldi hreinlega að ég komi aldrei til með að birtast aftur. Ég ætti kannski að hengja dagsettar myndir af mér á hverja grein til að róa þær? Bara svona svo þær sjái að ég er þarna á hverjum degi.....
Ég ætlaði að fara í kvöld og reita arfann úr kartöflubeðinu okkar Lólar, þeirrar síflissandi kjéddlingar, en svo ákvað ég að slá grasið og nenni ekki fleiri garðyrkjustörfum í dag. Ég meina ég hugsaði líka heilmikið um að reita arfann í allan dag - fólk hefur nú þreyst af öðru eins... ha... Lóló? Ég stefni hinsvegar að því að hugsa minna um það á morgun og hugsanlega næ ég þá að koma því í verk ;)
Ég skaust yfir götuna - eins og ég kýs að kalla þjóðveg númer unó, það virkar meira svona úti á landi - ég er alveg viss um að þið sjáið fyrir ykkur moldargötu þar sem rykið þyrlast upp þegar ég hleyp á ofsahraða yfir...... og fékk mér einn kaffibolla með Svandísi. Græddi í kaupbæti koss frá Bjarna Bóksala sem var staddur þar að meta bókasafn sem Nytjamarkaðurinn hafði fengið. Alltaf að græða........
...ég enda eins og hver annar sjálfstæðismaður; Græði á daginn og grilla á kvöldin! Áður en við verður litið verð ég farin að stela bílastæðinu mínu og sníkja mola a la Árni Johnsen
Jii ég hlakka svo til.......
22.6.2009
Pabbarölt og partýpinnar!
Ég hljóp í kvennahlaupinu á laugardaginn. Kom ekki síðust í mark - en heldur ekki fyrst..... Magga hljóp með mér og blés ekki úr nös enda í toppformi þessi kjéddling.
Eftir kvennahlaupið tók við hamslaus undirbúningur frænkupartýs í Reykjavík með tilheyrandi pöbbarölti eða pabbarölti eins og sumir kusu að kalla það Borðuðum góðan mat, drukkum kokkteila og rifjuðum upp sögur úr æsku en þar sem ég er bundin trúnaði get ég ekki haft þær eftir hér - ég get hinsvegar sagt ykkur ég dansaði svo mikið þessa nótt að ég er með blöðrur á tánum......... Vitaskuld var ég í nýju skónum!
Í bænum voru margir furðufuglar. Á Dubliners sáum við sjóræningja það eina sem hann vantaði var kráka á öxlina. Á Nasa dansaði ég lengi við sterku þöglu týpuna.... engin hætta á að lenda á trúnó þar. Hann dansaði samt ágætlega, hugsanlega var hann úr sveit - allavega utan af landi
Við vorum hrikalega fyndnar alla nóttina og ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að bærinn hafi logað í slagsmálum eftir að við vorum farnar heim að sofa. Enda.... hvað áttu allir strákarnir að gera þegar við vorum hættar að segja þeim sögur? Geir Jón vill fá okkur í bæinn um næstu helgi líka...... Samningaviðræður standa yfir en ég verð illa svikin ef ég fæ ekki fálkaorðuna fyrir óeigingjörn störf í þágu friðar.
Ég var í merkilega góðu standi á sunnudaginn miðað við þann svefn sem ég fékk. Ég hef heldur ekki skemmt mér svona vel alveg síðan síðast.
Pís
17.6.2009
Sólarsamba.......
Fór í morgun og skokkaði stóran hálfhring - .......og til baka með Stúf Stubbalings í broddi fylkingar. Enda ekki seinna vænna að fara að æfa sig ef ég ætla að taka þátt í kvennahlaupinu á laugardaginn - skelþunn. Hef þó þann fyrirvara á þátttöku minni í ár að ef ástandið verður ekki uppá marga fiska þá víkur hollustan fyrir glaumi og gleði. En eins og þið vitið þá er hvorlki heilbrigt né skemmtilegt að skokka..........
Ég sá marga sæta stráka og það sem meira var - þeir sáu mig......... Þeir eru núna heima að blogga um það
Gleðilega þjóðhátíð
Ég bý úti á landi og sumir eru svo frægir að þekkja mig. Þannig að ef þið heyrið fólk tala um að það þekki landsbyggðarfólk þá er það sama fólk að tala um mig!
Ég bý við þjóðveg numero uno. Já ég veit það er skrýtið að þjóðvegur númer eitt liggi út á land
Nú erum við sumsé komin að kjarna málsins. Vegna þess að ég bý við þjóðveg númer eitt OG úti á landi, keyra framhjá húsbílar, fellihýsi og annað fólk með allskyns hala. Það er ekki laust við að ég glápi á húsbílana þegar við Ljónshjartað erum að míga úti í garði. Fólk er nefnilega haldið þeirri undarlegu áráttu að nefna farartækin sín. Ég skil þetta með bátana - það eina sem ég skil ekki hvað þá varðar er að þeir skuli ekki allir heita því bjútífúl nafni HRÖNN......... og talandi um kænur - Ég hef komist að því hvað það þýðir orðtækið að fá babb í bátinn - ég segi ykkur það kannski einhvern tíma ef vel liggur á mér.
... en þegar fólk er að nefna húsbílana sína Loveboat eða Suðurlandsskjálfti þá glotti ég í kampinn. Ég ákvað snemma í vor að skrifa jafnóðum niður nöfnin á þessum farartækjum og efna til samkeppni í haust um frumlegasta nafnið og hallærislegasta nafnið.
Sjálf fer ég hins vegar flestra minna ferða á mínu fjallahjóli sem ég kýs að nefna Trekkinn. Ekki vegna þess að það sé af tegundinni Trek heldur vegna þess að ég hjóla svo hratt að það myndast trekkur bara ef ég horfi á það!
Tók daginn snemma - með morgunkaffi í Félagslundi - eða sko.... byrjaði daginn á því að stela vikri úr hringtorginu. Vantaði smá vikur í vermireitinn og eins og samkvæmt pöntun valt vikurflutningabíll í hringtorginu fyrir nokkrum dögum........ Ótrúlega heppilegt - fyrir mig allavega - kannski ekki svo heppilegt fyrir vikurflutningabílstjórann.....
Fór síðan og fékk mér morgunmat í Félagslundi - það er Fjör í Flóa og mikið um að vera. Skrattaðist um allan Flóann með Möggu systir í sól og blíðu. Skoðaði prjónavörur úr lopa - ekkert smá flott, keypti mér líka þæfða lopavettlinga.... já krakkar mínir, það verður ekki alltaf sól þótt þið standið í þeirri trú núna að ykkur verði aldrei aftur kalt.
Skoðaði nýuppgert eldgamalt eldhús og keypti mér concrete sól.... sem kemur til með að reynast mér jafnvel og vettlingarnir á dimmum vetrarkvöldum þegar ég sekk í þunglyndi og verð búin með allt sem heitir gleðipillur hvaða nafni svo sem þær nefnast. Annars þegar ég hugsa nánar út í það þá er mitt þunglyndi líklega meira birtutengt
Sá uglu! UGLU!! Muniðið þegar ég sagðist geta dáið hamingjusöm þegar ég væri búin að sjá uglu? Well - nú á ég bara eftir að sjá örn Það var ótrúleg sjón að sjá ugluna fljúga yfir veginn...... Ég sagði við Möggu sem var búin að keyra mig um allar trissur og skoða allt frá fjöru að fjalli, að þetta hefði verið hápunktur dagins!
En.....
.....hvernig gat ég vitað að fallegasti maður Íslands væri bókstaflega á næstu grösum? Næsta stopp hjá okkur var nefnilega á bæ þar sem kennd er torfhleðsla og fyrsti maður sem við sáum var.........
Þorvaldur Þorsteinsson! Ég legg ekki meira á ykkur..... Magga spjallaði við hann eins og ekkert væri en ég missti hjartað oní maga og magann oní skó. Hafði þó rænu á að draga upp myndavélina og smella af...... Ég veit það núna sem ég hafði þó sterkan grun um að ég hef ekkert að gera á námskeið hjá honum um skapandi skrif - ég héldi engri einbeitingu. Svo er hann með svo fallega rödd.....
Uglan hvarf algjörlega í skuggann og hef ég þó beðið í 10 ár eftir að sjá hana
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
3.6.2009
Samsæri
Ég hugsaði mér sérdeilis gott til glóðarinnar að vera atvinnulaus hálfan daginn nú þegar sólin er hátt á lofti og fuglarnir syngja 24/7. Raunin er sú að ég geng um, þrjózkan uppmáluð, með "after bite" í annarri, sökum heiftarlegs ofnæmis við mýflugnabiti og geitungastungum og sólarvörn númer 30 í hinni vegna sólarexems......
Ég læt það hinsvegar ekkert á mig fá, fer bara í buxur með svo stórum vösum að hvítabjörn á flótta gæti falið sig í þeim.......
Í dag fór ég á listsýninguna 'Ferjustaður' í skóginum.
Sýningin er sett upp þannig að verkin standa vítt og breytt um skóginn, kort eru "afhent við innganginn" og svo leggur maður land undir fót og finnur listina samkvæmt númerum á kortinu. Eins og gengur og gerist var ég mishrifin af því sem fyrir augu bar og sum staðar bjó ég til mína eigin sögu um verkið bara svona til að það meikaði sens............
Að öðrum verkum ólöstuðum fannst mér bezt verk sem kallast Kíkir og er eftir Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur. Sjónaukanum er beint yfir ána að Selfossi en þegar maður kíkir í hann sér maður ekki byggðina heldur allt, allt annað......... Sérdeilis óvænt og skemmtilegt.
Ég öslaði þarna um göngustíga og mýri, stundum göngustíga í mýri...... óð yfir læki og flækti mig í kóngurlóarvefjum í rúma tvo tíma og fann öll verkin nema eitt sem ég veit að er staðsett svo langt úti í mýri að aðeins fuglinn fljúgandi kemst að því. Allavega var ég ekki skóuð í það verkefni í dag og ekki með nesti heldur...... Sum verkin eru svo vel falin að tuttugu börn gætu hlaupið um heilan dag án þess að finna þau.
Mæli með þessu, skemmtilegur ratleikur í gegnum skóginn með listaverk í fundarlaun.
Ég sé það svo núna, þegar ég er að skoða kortið nánar að Björgunarfélag Árborgar fær meðal annarra kærar (fyrirfram)? þakkir og það rennur upp fyrir mér ljós. Plottið var náttúrulega að búa til gildrur í skóginum og fækka fólki á atvinnuleysisskrá og hugsanlega kennurum líka - sem eru jú, eins og alþjóð veit komnir í sumarfrí en láta ófriðlega og vilja launahækkanir.