Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Það má kallast þjóðlegasti siður....

Ég brunaði langt út í sveit í dag. Ég ætlaði að ná mér í kartöfluútsæði. Niðri í kjallara er ég búin að sá spínati, gulrótum, brokkoli og blómkáli. Ég talaði nefnilega við vinnuveitendur mína um daginn, já ég veit.... það er bara óþarfi að vera að tala við þá alla daga Tounge og spurði hvort ég mætti stela spýtum af þeim til að smíða mér vermireit. Það var auðsótt mál. Þeir sögðust eiga nóg af timbri.... Í haust verð ég orðin há og grönn grænmetisæta.... en aftur að útsæðinu. Ég var semsagt komin þar í sögunni að ég var stödd langt úti í sveit, hvar mér hafði verið sagt að ég gæti nálgast hið margumtalaða útsæði. Ég var svo stálheppin að Mömmusinnardúlludúskur var með í för því ég er bara rétt nýbúin að klára bók eftir Stephen King og yfirfall á ímyndunaraflinu. Ég sá fyrir mér að undarlegur karakter kæmi til dyra. Martröð hverrar einstæðrar móður. Illa girtur, fölur náungi með byssuna falda á bak við hurð og kjallarann fullan af konum sem höfðu viljað vildu kaupa af honum útsæði.... og sagði við Mömmusinnardúlludúsk að ef ég ætti ekki afturkvæmt út úr þessu húsi þá ætti hann, algjörlega burtséð frá því hvort hann væri með bílpróf eða ekki, að bruna til baka upp á lögreglustöð og tilsegja manninn í sveitinni!!

Dúskurinn hélt nú ekki. Það kæmi sko ekki til greina að hann færi að bruna á lögreglustöðina. Um leið og ég fylltist stolti yfir mínu löghlýðna eintaki af dúski gerðist ég svolítið þung á brún og fannst hann ekki bera nægilega umhyggju fyrir móður sinni svo ég spurði, dulítið svona hvatskeytilega, og höfðaði til þess eina sem ég veit að hann getur ekki staðist "....og hvað ætlarðu þá að gera? Bara vera svangur.....?"  

...en nei. Þá ætlaði hann að bruna til baka, sækja vini sína og koma og bjarga mér úr klóm illmennisins! Ég er ekki enn búin að ákveða hvort ég á að vera ánægð eður ei....

Ég hef heldur ekki fengið neitt útsæði og er sannfærð um að maðurinn í sveitinni heyrði til mín og kom þess vegna ekki til dyra heldur bíður þess að ég komi einsömul á morgun......

Arríverderci!


Ég er að öllum líkindum....

Margrét Stefáns

....það sem flokka má undir pólitískt viðrini! Ég kaus vinstri græna, vorkenndi sjálfstæðismönnum og fór á kosningavöku til framsóknaflokksins. Á móti kemur að ég hef áður kosið framsókn án þess að fara á kosningavöku til þeirra - þannig að í rauninni var ég bara að skemmtanajafna.....Margrét Stefáns söng þar eins og engill og uppskar mikinn fögnuð viðstaddra.

Gærdagurinn var að flestu leyti ágætur. Við Stúfur Stubbalings fórum í gönguferð í skóginum. Þar hittum við þrjá sæta stráka sem voru að borða ís i sólinni og höfðu kosið framsóknarflokkinn. Stubbalings linnti ekki látum, sýndi öll sín trikk og uppskar að launum ís. Ég reyndi líka flest af mínum trikkum en þeir vildu ekki gefa mér ís........ Ég var soldið spæld, ég skal alveg viðurkenna það........       

Hafsteinn í Vík

Þessi var líka mættur í kaffi til vinstri grænna og var með betri klæddum einstaklingum á svæðinu. Ég hafði orð á því að það væri nánast eins og hann væri að fara að kvænast. Hann vildi meina að það væri aldrei of seint Happy 

Það hefur hins vegar eitthvað aðeins fækkað í liði sjálfstæðismanna en þeir grilla ennþá á kvöldin Tounge grillað á kvöldin.....


Dúlla dyttari......

Ég byrjaði daginn á því að laga snúrunar mínar sem slitnuðu í rokinu í gær þegar ég ætlaði að nota tækifærið og viðra sængina mína. Ég var líklega bara heppin að sængin var ekki rokin út í buskann Tounge

Bar síðan kjörvara á næstum alla kjallarahurðina á meðan ég fylgdist með sjálfstæðismönnum koma í sitt kosningakaffi. Það var þó meira eins og þeir væru að mæta í líkvöku svo stúrnir sem þeir voru upp til hópa. Ég ákvað að vera ekkert að rexa þótt einhver hefði stolið stæðinu mínu.

Nennti ekki að sækja mér stiga og hóaði mömmusinnardúlludúski niður til að klára að bera á þann hluta hurðarinnar sem ég náði ekki til. Það kemur sér stundum vel að eiga hávaxinn dúsk Happy

Ég er ekki búin að kjósa. Notaði tækifærið á meðan ég fékk útrás fyrir listakonuna í mér við kjallarahurðina til að fara yfir möguleikana og notaði útilokunaraðferðina.....

...X-D kemur náttúrulega alls ekki til greina. Þeir eru stela alltaf bílastæðinu mínu, fyrir nú utan "afrekin" sl. 17 ár. Ég hef aldrei kosið þá, þó einu sinni hafi ekki munað miklu.

X-B kemur heldur ekki til greina þrátt fyrir að mér lítist ágætlega á Inga sem er fyrsti maður á lista þeirra í Suðurlandskjördæmi. Hef oft kosið þá - en þeir voru jú með sjálfstæðisflokknum í stjórn í 12 ár! Sorrý Ingi! Ekki mitt atkvæði í ár!

X-S hugnast mér ekki. Þeir áttu jú bankamálaráðherrann - og komu ekki auga á neina vá á meðan utanríkisráðherrann þeirra eyddi peningum eins og þeir yxu á trjánum við að reyna að komast í öryggisráðið.....

X-P? Nebbs! Ekki þó þeir væru eina framboðið.

X-F? Neeeeee.... Skrýtið....Ég verð hreinlega ekkert vör við það framboð hér! 

X-V Hugsanlega. Mér líst vel á Atla - en þeir eru kannski fullharðir í afstöðu sinni til náttúruverndar! Allt er best í hófi.

X-O Kannski.  Þau eru eitthvað alveg nýtt! Boða nýja strauma.

Best ég drífi mig í kaffi til þeirra og heyri í þeim hljóðið áður en ég ákveð mig.

Spennandi dagur!


Skapandi regn!

Þegar ég vaknaði í morgun rigndi svo mikið að Stúfur Stubbalings vildi ekki sjá að fara út! Þannig að orðatiltækið; ekki hundi út sigandi, á verulega vel við! Svo stendur hann í þeirri trú að hann sé skraut í rúmi eftir að ég fer á fætur..... Ljónshjartað testar Geimvísindastofnun

Á eftir - þegar ég verð búin að vinna fyrir uppáhaldsmennina mína - ætla ég að baka! Bæði kanelsnúða og súkkulaðicroissant a la Nigella! Sá einhvern tíma þátt með henni þar sem hún átti von á yfirmanni sínum og hristi svona volg súkkulaðicroissant fram handa honum. Ég ætti kannski að gera það líka fyrir mína menn? Þeir eru soddan krútt og eiga það alveg skilið..........

Við Heiðdís lögðumst í sólbað eftir feikifínan tíma hjá Betu í gærmorgun! Ég held að það hafi verið einu fimmtán mínúturnar sem stytti upp þann daginn! Spurning hvort einhver vill borga okkur fyrir að liggja í sólbaði í lauginni?

Einar Indriða var að tala um að hann vildi eiga tímavél og þá gerði ég eins og maðurinn í búðinni hér um árið, muniði eftir honum? "...... og þá fór ég að reikna....." nema ég fór ekki að reikna enda arfaslök í reikningi, ég fór að hugsa. Því það fer mér svo vel..... Ef ég ætti tímavél og gæti flakkað um tímann, mundi ég vilja breyta einhverju? 

Niðurstaðan er já! Ég mundi vilja breyta einhverju en bara einhverju smotteríi. Ég mundi til dæmis skilja fyrr við minn fyrrverandi. Þá væri ég búin að halda upp á miklu fleiri daga án hans.... Ég ætti kannski að skrifa bók - svona eins og Davíð... nema mín mundi vera á frummálinu og heita: Few good days without....! Tounge

Ég ætla ekki einu sinni að reyna að spyrja ykkur hvort þið munduð breyta einhverju í ykkar lífi ef ég mundi lána ykkur tímavélina mína - en..... hvert munduð þið vilja fara í framtíðina?


Fuglasöngur!

Ég vaknaði klukkan 05:11 að staðartíma við tístandi þresti í bullandi tilhugalífi úti í trjánum og hugsaði:

..................................................................................................................................................................

.............................................................................................................................................................

.......................................................................................................................................................

......................................................................................................................................................

.................................................................................................................................................

..........................................................................................................................................

..................................................................................................................................

 

.......nú væri gott að eiga kött Tounge

Meiri endalausa hamingjan alltaf hreint!


Ég er svo einheppin eitthvað....

Fékk tilkynningu um að ég ætti ábyrgðarbréf í pósti í gær. Ég skoppaði náttúrulega út, full tilhlökkunar og forvitni. Alltaf svo spennó að fá ábyrgðarbréf.......

Þegar ég svo framvísaði miðanum, á pósthúsinu, kom í ljós að þetta var bréf frá sveitarfélaginu, ég hafði nefnilega sótt um vinnu hjá þeim og nú var sumsé sveitarfélagið að svara mér. Ég kvittaði fyrir móttöku og ætlaði svo að skondrast heim aftur - þegar hún hóaði í mig aftur afgreiðslustúlkan, svo hýr og björt á brá og bað mig að kvitta meira.....

Ég mundaði pennann og sagði hátt og snjallt um leið og ég flissaði aðeins til að milda það "Vá - það mætti halda að ég hefði verið að sækja um bæjarstjórastarfið, það þarf að kvitta svo mikið..... sem væri svo sem ekki vitlaus hugmynd ef ég fengi líka að sofa hjá manninum sem bæjarstjórinn sefur hjá...."

Snéri mér svo við og stóð þá augliti til auglitis við manninn sem bæjarstjórinn sefur hjá.....  

Hvað gerði ég? Ég sagði "hæjjjj" og brosti blítt til hans Tounge


Í dag var vor...

...og ég fór í langan göngutúr með Stúf Stubbalings. Ég áttaði mig náttúrulega ekki á því að það væri vor fyrr en umb. 30 mín. eftir að ég lagði af stað - klædd eins og vetur.......

Ég var svo að tína af mér vettlinga, húfu, úlpu, hálsaskjól og ég sver það - ef ég hefði verið í bol innan undir peysunni þá hefði ég farið úr henni líka. Ég spáði alvarlega í það að fleygja mér í tjörnina á eftir Ljónshjartanu þegar hann öslaði þar yfir og fékk sér vel að drekka í leiðinni! En svo áttaði ég mig á því að hafmeyjur láta náttúrulega ekki sjá sig í tjörnum Tounge Það er erfitt að vera svartur hundur í hita - skárra er þó að vera föl tík!

Það stóð svo heima þegar ég var rétt nýlent kom rúmið sem ég fjárfesti í um helgina. Mömmusinnardúlludúskur var vitanlega fenginn til að setja það saman og nú liggur dýnan sem er made by NASA og var ca. 2 cm. á þykkt þegar hún var tekin upp og blæs út! Þetta endar með því, ef hún fer ekki að slá af, að ég þarf stiga til að komast upp í rúm! Þá fleygi ég mér ekki undir rúm heldur upp í loft W00t Ég er líka harðákveðin í því að lengja svefntíma minn úr átta tímum í tíu - nú, þegar, strax!!

 


Björn Bjarnason

Alla síðastliðna viku hef ég drukkið grænan sjeik að hætti Himneskrar hollustu! Fyrsta morguninn fékk ég mér bara lítinn sopa og kyngdi afar varlega, nánast eins og ég væri að gera eitthvað allt annað..... og ég get sagt ykkur að þetta var svo vont að ég nánast gerðist dóni og spýtti öllu út úr mér aftur. Ég allavega uppgötvaði af hverju Solla í HH er alltaf á útopnu - hún er að finna sér verkefni til að komast undan því að drekka þetta ógeð Tounge

Svo, af því að ég er svo dönnuð og kann ekki við að standa í mínu eigin eldhúsi og skyrpa, breytti ég aðeins uppskriftinni, setti bara ávexti sem mér finnast góðir - ásamt spínatinu og vatninu og þvílík innspýting! Ég storma allt að sex kílómetra á dag með Ljónshjartað lafmótt í eftirdragi, sit og prjóna til kl. 2 á nóttunni, meira að segja hef ég, bara í þessari viku, prjónað tvo hæla og var þó rekin úr þeim handavinnutíma sem hælaprjón var kennt.....

Það var nefnilega þannig að ég fór, í þeim tíma, að velta fyrir mér sögninni "að auka í" og beygingu hennar...... bað síðan handavinnukennarann, og átti verulega bágt með mig, að hjálpa mér að jóka í sokkinn sem ég að prjóna..... Hún hafði einhvern veginn engan húmor fyrir þessum, að sjálfs míns mati, bráðskemmtilega orðaleik Happy Hvað er þetta eiginlega með kennara og kímnigáfu? Kannski var skýringin bara sú að það átti ekkert að auka í þennan sokk? Ég þarf að taka þessa umræðu upp við viðkomandi handmenntakennarara einhvern tíma í góðu tómi!

Ég veit samt ekki alveg hvað ég á að gera við þessa tvo hæla sem ég prjónaði..... Tounge

Ég er að lesa bókina Petite Anglais, það rifjast ýmislegt upp fyrir mér við þann lestur.... m.a. það hvað ég er þakklát fyrir að þurfa ekki lengur að umgangast leiðinlegasta mann hérna megin Alpafjalla Happy

 


Allt um ekki neitt!

Regnið hamast á rúðunni....

.... Það er kappakstur á götunni.....

.........Strákur pissar á körfurnar í Bónus

..............og ég er farin að sofa!

Heart

 


Ég breytti statusinum á feisbúkk!

Ég byrjaði daginn á grænum sjeik frá Himneskri Hollustu - nema í mínum meðförum varð hann aðeins út í súkkulaðilit - ég setti peru í hann og hann breyttist úr grænum sjeik í brúnan sjeik - sem er, ef ég á að vera alveg hreinskilin, öllu girnilegri en grænn.........

Hann var svo góður að ég drakk tvö glös! Setti í hann; vatn, spínat, lime, peru, epli, engifer og bláber.  Vann svo af alefli fyrir mína frábæru vinnuveitendur fram að hádegi.... eftir það slæptist ég í pollum eins og hver annar eymingi á bótum frá ríkinu - eða eins og ég kýs að kalla það - átti gæðastund með sjálfri mér úti í ekki svo guðsgrænni náttúru en sæmilega blautri allavega....

Ég endaði daginn hins vegar á súkkulaði sjeik frá Kjörís! Kona getur ekki lifað á hollustunni einni saman Tounge

Ég er á leiðinni undir rúm - það er vatnsfimi hjá Betu í fyrramálið og ef ég þekki hana rétt þá vill hún koma okkur í kjólinn fyrir páska....... Eins gott að mæta úthvíld í tíma hjá henni Joyful

Fyrirsögnin? Ég er, af mínu alkunna innræti, að gera grín að fólki sem tilkynnir á feisbúkk að það hafi verið að blogga Tounge


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.