Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009
29.12.2009
Hvað boðar blessuð nýárssól?
Það styttist í að ég komist í vatnsfimi á ný! Staðan er þannig að mig langar í sund ca þrisvar á dag - eingöngu vegna þess að ég má ekki fara í sund. Hvernig ætli standi á því að allt sem er bannað er svona ómótstæðilega freistandi? Mér hefur meira að segja dottið í hug, svona alveg nýverið, að versla í Bónus eftir lokun.... spara bæði tíma og peninga....... Ætli sé ríkjandi í mér glæpagen? Það kemur sér þá vel að ég bý í nágrenni lögreglustöðvarinnar. Umhverfið breytist allavega ekki ýkja mikið ef mér er stungið inn...... Svo eru þeir þá líka orðnir svolítið vanir mér, mennirnir með bláu ljósin
Það styttist líka í nýtt ár - 2010 - alltaf svolítið spennandi þó ég sé í eðli mínu alfarið á móti breytingum. Mér finnst þessi tala líka dulítið spennó..... 20 og tíu! Hvað boðar hún?
Hér drundu ýlur og semíflugeldar í gærkvöldi, fyrsta daginn sem flugeldasalar höfðu opið. Hundar másuðu og hvásuðu og ætluðu að blása húsið um koll á milli þess sem þau földu sig undir borði og pilsfaldi. Þau róuðust ekki fyrr en ég rifjaði upp fyrir þeim söguna af litlu hundunum í Kazakstan sem feta sig á milli jarðsprengna á meðan bombur duna allt um kring. Kattarósminn lét sér hinsvegar fátt um finnast, læddi sér út og leit hæðnislega á mig þegar ég varaði hann við því hvaða árstími væri. Ég er ekki frá því að það hafi vottað fyrir smááááá fyrirlitningu í hægra auganu um leið og hann lét sig hverfa niður tröppurnar og út í myrkrið.
Hann var ekki alveg jafn kokhraustur þegar við Ljónshjartað fórum út að míga nokkru síðar og tókum á móti honum í loftköstum! Ég er náttúrulega þetta þroskaðri en kötturinn og stillti mig um að svara honum með sama viðmóti en sagði honum í staðinn söguna um stígvélaða köttinn í ööööörlítð breyttri útgáfu.......
Við huggum okkur við það, hér í dýragarðinum, að það er eins með áramótin og annað - þau líða hjá.... að lokum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.12.2009
Þá eru jólin gengin í garð.
Ég skreytti jólatréð með dyggri aðstoð litla Kattarósómans sem er að upplifa sín fyrstu jól sem Jólakötts og lét ekki gabbast þó ég opnaði niður í kjallara - hans uppáhaldsævintýrastaðar, hann getur hangið þar niðri tímunum saman enda eru þar svo mörg skúmaskotin að ég gæti hæglega haldið árshátið útrásarvíkinga
Við fröken Fíólín sungum í messu klukkan sex á aðfangadag - jú og örfáir aðrir sem eru með okkur í kórnum Ég man ekki eftir því að hafa nokkru sinni fyrr mætt í messu á aðfangadag- en mæli alveg með því. Eftir messu komumst við að því að það er hefð fyrir því að kyssa alla meðlimi kórsins og óska gleðilegra jóla. Jamm stórgræddi marga kossa frá fallegum mönnum - þetta var næstum eins og að eiga afmæli ;) Ég sagði líka að ég hefði verið lööööngu gengin í þennan kór ef ég hefði vitað af þessum hlunnindum......
Á Þorláksmessu voru ellefu ár síðan ég tók afdrifaríka ákvörðun varðandi líf mitt sem síðan hefur farið stigbatnandi og sér ekki fyrir endann á því. Hugsið ykkur.... ellefu ár sem ég hef notið þess að elska sjálfa mig. Ég segi það ekki - það er kannski kominn tími á að leyfa öðrum að elska mig örlítið líka.......því eins og Pálmi syngur "...víða mætti vera meira um kærleika og ást." En það verða þá vel valdir einstaklingar
Í dag gengum við Ljónshjartað út með á í fimbulkulda en feykifallegu veðri. Ég sofnaði svo vært eins og gömul kona í messu þegar við komum inn aftur - enda fátt meira svæfandi en sofandi hundur í sófa og malandi köttur við hlið hans. Endaði svo daginn í mat og spilum hjá Möggu.
Betra verður lífið varla
21.12.2009
Jólin.... jólin....
Dagurinn var allur fremur krappí!
Nístingsískuldi og myrkur úti. Allir, þ.m.t. - les. þar með talin- ég, með hausinn undir sér og hvorki heyra né sjá. Jólin alveg að koma og ég á eftir að gera eitthvað svo mikið....
Kom við á pósthúsinu með tilkynningu sem barst inn um lúguna í gær og átti alveg eins von á því að ég þyrfti að borga stórfé fyrir einhvern fjárans pakka sem væri að villast í þokkabót. Trúðu mér ég hef nefnilega lent í því. Ég þurfti einu sinni að reiða fram stórfé fyrir pakka sem átti alls ekki að koma til mín! Sjúkket fyrir að það eina sem mig skortir ekki eru peningar......... Ég átti hins vegar þennan pakka en átti á hinn bóginn alls ekki von á pakka og opnaði hann því vitaskuld um leið og ég kom heim.
Viti menn! Upp úr pakkanum tíndi ég kort, smákökur, brauð - sem ilmaði dásamlega - og kerti.
Allt heimabakað, já kortið og kertin líka Þetta bjargaði gjörsamlega mínum degi og í staðinn fyrir að hella mér yfir Dúskinn, sem mér finnst ekki alveg nógu jólalega sinnaður, flissaði ég eins og fífl og bað hann að fara upp á háaloft og sækja jóladótið. Og þú mátt treysta því að það var sagt miklu blíðlegar en lagt var upp með......... Allt vegna þess að ég bullaði svo mikið um Kaffi Amen. Segðu svo að bull borgi sig ekki
Ég áttaði mig líka á því að ég er nánast búin að græja allt fyrir jólin. Bara smotterý eftir og ég áttaði mig líka á öðru! Ég SÉ
Um leið og ég þakka Birnu Dís fyrir sendinguna langar mig að hvetja ykkur hin til að fylgja fordæmi hennar
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.12.2009
Ég hlakka svo til.........
Ég skrapp í höfuðstaðinn í morgun - í eftirskoðun. Augnlæknirinn er svo ánægður að maður nánast roðnar...... Ég stundi því upp, að stundum á morgnana, gæti ég ekki opnað augun þau væru svo samanlímd.
Í staðinn fyrir að drífa mig aftur inn í aðgerðarstofuna og endurtaka leikinn, eins og ég óttaðist mest. Kinkaði hann kolli, eins og væri hann Doddi í Leikfangalandi og sagði mér að það væri fullkomlega eðlilegur fylgifiskur aðgerðarinnar. Þetta væri hvarmabólga og ég skyldi vera dugleg að nota tárin....... Ég sagði honum ekki að ég grenja bara úr frekju. Fannst það einhvern veginn ekki alveg viðeigandi Segiði svo að ég kunni mig ekki!
Ég erindaðist síðan lítillega í Reykjavík og á leið minni heim ákvað ég að koma við í Garðheimum og skoða ljósaseríur. Ég setti náttúrulega upp sólgleraugun - því á leiðinni í gegnum Bústaðahverfið ákvað sólin að gægjast aðeins í gegnum skýin - og það var eins og við manninn mælt! Ég var umkringd sérsveitarlögreglumönnum og mótórhjólalöggum með blá blikkandi ljós.
Díses ég hlakka svo til þegar ég verð gömul og ljót og löggan hættir að elta mig
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.12.2009
Ég vild´ég væri hommi....
....hvíslaði ég að systur minni í hléinu, algjörlega fordómalaus - enda margir af mínum beztu hommum vinir - þá mundi ég fá mér svona glitrandi kjól í stíl við jakkafötin hans Páls Óskars.
Ég var nefnilega að koma af tónleikunum Hátíð í bæ - þar sem Páll Óskar sló í gegn ásamt fjöldamörgum öðrum. Páll Óskar var í jakkafötum sem sindruðu og glitruðu við hverja hreyfingu og ég hugsa að sígauninn hafi náð völdum þarna innra með mér örstutta stund...... Ég er gefin fyrir glitr - það er bara þannig!
Tónleikarnir voru sérdeilis frábærir - enda rétt sem sagt var þar: Söngur gefur lífínu lit! Allavega hjá Palla
Augun eru öll að koma til. Í kvöld steig ég ekkert ofan á hundinn - kannski mest vegna þess að ég var ekki heima? Í gær steig ég tvisvar á hann þar sem hann lá í sakleysi sínu í myrkum ganginum og steinsvaf. Hann var farin að líta mig dulítið ásakandi hornauga þegar ég loksins skrattaðist undir rúm....
Ég setti á mig sólgleraugun kl. 15 að staðartíma og tilkynnti vinnufélögum að ég væri hin nýja Jackie Onasiss - alltaf með sólgleraugu og alla vasa fulla af seðlum. Þau voru eitthvað vantrúuð á seðlana alveg þar til ég dró upp alla mína minnismiða
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
....Jesú stundum?" Spurði ég augnlækninn í gær þegar ég tölti á eftir honum inn á stofu. "Blindir fá sýn....?"
Já krakkar mínir ég fór í laser aðgerð í gær. Í dag las ég síðan, eins og krakki, á öll skiltin á leiðinni til Reykjavíkur í eftirskoðun. Ég held að Magga, minn einkadriver þessa dagana, hafi ekki alveg áttað sig á því hvað mér þótti varið í að lesa á skilti gleraugnalaus...... Eygló, hins vegar, var miklu meira með á nótunum, þegar ég las auglýsingarnar á bílunum sem keyrðu undir eldhúsgluggann hjá henni - enda sjúkraliði....
Aðgerðin var náttúrulega skelfileg frá upphafi til enda, fyrir utan að hún kostar hvítuna úr augunum, en algjörlega þess virði. Ég meina ég SÉ!!
Augnlæknirinn spurði mig þegar ég fór í það sem þeir kalla forskoðun, hvers vegna ég vildi fara í þessa aðgerð og ég ákvað að segja honum bara eins og er. Ég væri orðin hundleið á að sjá ekki sætu strákana í sundi Hann sagði mér þá að hann ætti einmitt vin sem "væri svona blindur" - á þeim tímapunkti þakkaði ég honum kærlega fyrir - og hann fílaði sig nú eins og perra í sundi. Hann sæi svo vel...... Þannig að þetta er algengara vandamál en fólk heldur Í skoðuninni í morgun var ég látin halda fyrir annað augað og lesa stafi uppi á vegg - ég sá cirka helminginn - þannig að hann svissaði yfir í enn minni stafi þar sem ég sá tvo fyrstu og sagði svo: "Nei - ég sé þetta ekki....." Það þótti honum flott og sagði mér að ég væri með 120% sjón, sem ég að vísu er svolítið tortryggin á - enda tortryggin að eðlisfari. Ég meina síðast þegar ég fór til augnlæknis og sá svona lítið á spjaldið sagði sá læknir við mömmu að hann mundi ekki treysta þessu barni einu úti á götu...... Hugsanlega hafa staðlarnir eitthvað breyst.... og þó - það er ekki svo langt síðan ég var barn
En, gott fólk, ég fór í gær og keypti mér mín fyrstu sólgleraugu og geng nú um með þau á nefinu í þoku, rigningu og myrkri - ekki vegna þess að ég þurfi þess heldur vegna þess að ég er ógeðslega töff með þau