Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
31.1.2008
Vonin lífs er verndarengill
Ég hringdi sérstaklega í minn nýja yfirmann í dag til að segja honum hvað ég væri dugleg - ég meina hver á að segja honum það annars? Ég er líka ennþá að reyna að kenna honum að byrja hvert okkar samtal á að segja: "Mikið rosalega er ég heppinn að hafa þig í vinnu......" Gengur hægt - endar líklega með því að ég þarf að fara með hann á hlýðninámskeið!
Stúfur Stubbalings lærir hraðar. Ég er að kenna honum ýmis trix í skjóli myrkurs á okkar daglegu morgungöngum. Sagði honum í morgun að hann væri orðinn svo duglegur að næst lægi fyrir að selja hann í sirkus Hann brosti til mín, fullur trausts. Veit líklega sem er að því mundi ég aldrei tíma. Ekki eftir að vera búin að leggja alla þessa vinnu í að kenna honum þessi brögð
Á morgun eru tuttuguogtvö ár síðan ég gifti mig!! Spáið í því! Við erum næstum jafnaldra, ég og brúðkaupsafmælið.......
Ég ætla að halda upp á daginn! Ég er alveg ákveðin í því að fara út að borða með vinum mínum - báðum!! Aldrei að láta gott tilefni til fagnaðar ónotað. Ég held líka upp á daginn sem ég uppgötvaði að hjónabandið var búið, daginn sem ég henti honum út og daginn sem skilnaðurinn tók formlega gildi Ég held líka upp á afmælið mitt og páskana, bara svo það sé á hreinu...... Ég held svei mér þá að ég gæti verið ættuð úr Vestmannaeyjum, ég kem svo oft fagnandi.
Fékk alveg hrikalega góða heimsókn áðan. Fanney kom loksins í kaffi til mín! Yndisleg kona hún Fanney og ég get svo svarið það að ef ég væri "þannig kona" mundi ég reyna að stela henni frá Bóndanum.
Einhver sem getur sagt mér úr hvaða ljóði fyrirsögnin er?
Við Stúfur Stubbalings vorum sammála um að við fyndum lykt af vori í morgungöngunni - hefur samt líklega verið hugarburður. Snjórinn að villa á sér heimildir........
Hinsvegar fann ég lykt af flatkökum - einhver var að baka flatkökur á svona rafmagnsplötu úti í bílskúr. Velti því örstutt fyrir mér að ganga á ilminn og banka uppá. Svakalega langaði mig í svona heimatilbúna flatköku með smjöri og hangikjöti - slurp.... Hætti samt við á síðustu stundu, það er nógu mikil hætta á að fólk hringi á vini mína með bláu ljósin þegar það sér mig standa hreyfingarlausa og mæna inn um gluggana. Ekki vegna þess að í mér blundi leyndur hæfileiki til að leika jólasvein og því síður vegna þess að ég sé svona mikill perri, þó óhjákvæmilega hafi ég stundum svolítið gaman af því sem ég sé inn um gluggana...... en það er allt önnur saga sem verður ekki sögð hér. Nei það er vegna þess að hundurinn gleymir sér stundum gjörsamlega og týnir trýninu alveg í holu í snjónum, þá arka ég fram úr honum og þarf svo að hinkra og þá kemur fyrir að ég gleymi mér við að horfa inn um glugga og ranka ekki við mér fyrr en ég sé að einhver starir á mig á móti........... Kannski leynist í mér lítill perri??
Komst að því í morgun að ég er búin að léttast um tvö eða þrjú kíló síðan ég byrjaði í nýju vinnunni. Ég enda há og grönn
Loftnetið fauk af hjá mér í rokinu í gær og útsendingar versnuðu til muna. Ég þarf eiginlega mikið til að gizka á hvað fer fram í sjónvarpinu síðan, sem gerir það aftur að verkum að dagskráin lagaðist verulega
Einhver sem getur sagt mér hvað fyrirsögnin fyrirstillir?
pís
26.1.2008
Glíkur hörðum stein.........
Í gærkvöldi var mér var boðið í hangikjöt með grænum baunum og uppstúf, sem er um það bil eini þorramaturinn sem ég borða........... jú og harðfiskur líka - og flatkökur - er þetta ekki annars ábyggilega þorramatur?
Pabbi átti afmæli og mamma bauð mér í mat - ég meina ég er nú einu sinni upphaldsdóttirin eða kannski sú eina sem er á staðnum........ hin hugmyndin er betri - ég held mig við hana!
Sat svo eftir matinn og sötraði kaffi og Grand langt fram eftir nóttu og spjallaði við mömmu. Yndisleg stund. Þegar ég ákvað loks að tími væri kominn á mig að fara heim var klukkan langt gengin í tvö og veðrið algjörlega vitlaust!! Ég sagði við mömmu að ég yrði líklega að fara heim, sækja Ljónshjartað og gista hjá henni...........
Í dag hef ég gert mest lítið, ég sat heillengi og taldi sjálfri mér trú um að ég væri að lesa - en líklega var ég mest sofandi........ heyrði samt alltaf í útvarpinu
Rólegur dagur, algjörlega fyrir sjálfa mig
Einhver sem hefur hugmynd um hvað fyrirsögnin þýðir?
24.1.2008
Það snjóar!
Stubbaling fannst ótrúlega gaman í morgungöngunni, þegar ég hnoðaði snjóbolta og kastaði út í loftið og hrópaði "finndu snjóinn......" Hann stökk af stað í hvert sinn, hnusaði þar sem boltinn lenti eða reyndi að grípa hann áður en hann hvarf........... Hann var orðinn lafmóður af öllu hoppinu fyrr en varði og ég hló svo mikið að honum að það jaðraði við að hann móðgaðist...... Ég þekki annan sem er svona spéhræddur og sagði Ljónshjartanu að ef hann léti svona þá skipti ég um nafn á honum. Hann lét segjast og tölti prúður við hlið mér það sem eftir lifði göngu, nema þegar við gengum fram hjá kisuslóðum, þá þurfti hann aðeins að rjúka í hornið hjá þeim, kom mér aldeilis verulega á óvart. Skrýtið hvað kisur eru alltaf jafnspennandi!
Ég fékk símtal frá fasteignasala í gær. Hann spurði mig hvort ég hefði íhugað að selja???!!! Ég sagði honum að það yrði þá að koma gott tilboð - ég hefði enga ástæðu til að hugsa mér til hreyfings. Ég veit svosem alveg hvað hékk á þeirri margfrægu spýtu. Húsið mitt stendur nefnilega á eignarlóð og "athafnamenn" renna hingað hýru auga - ekki af því að þeir séu þannig stemmdir neitt - og ekki heldur vegna þess að þeim lítist svona vel á mig heldur er það grasið sem heillar. Það glóir víða grámosinn!
Ég klæddi mig í giftingarpilsið mitt í morgun - svona í tilefni dagsins, eða kannski bara vegna þess að mig langaði að vera í því í dag
Ég er að spá í að baka í kvöld. Vera svona eins og söguhetja í bók eftir Snjólaugu Braga og baka í frystinn - mömmu sinnar snúlli getur þá allavega hirt það með sér næst þegar hann kemur við til að kyssa mömmu sína góða nótt.
23.1.2008
Björn Bjarnason
Það er svo gaman í nýju vinnunni að ég gleymi að hætta, það er nefnilega ótrúlega skemmtilegt að gleyma sér innan um tölur. Hafiði ekki prófað það? Verðið að prufa....... Svo gengur allt upp, allar tölur rúlla á sinn stað og ég krullast upp af hamingju inni í mér - um stund allavega. Spurning hvort ég láti klukkur hringja á hættutíma, fái kannski gamla KÁ smiðju lúðurinn til að þeyta mér inn í hversdaginn, eftir vinnutíma. Man einhver eftir þeim lúðri? Ég man ég fylltist spenningi, það þýddi að pabbi var búnn að vinna. Þá annað hvort skoppaði maður heim í mat, því þá var mamma alltaf tilbúin með matinn eða faldi sig, fór eftir hvað ég hafði aðhafst þann daginn......
Sofnaði klukkan sjö í gærkvöldi, ég held ég sé verri en gamla fólkið, það vakir þó yfirleitt fram yfir fréttir...... Mér var kalt, ég var þreytt, önug og örg, þannig að ég ákvað að halla mér aðeins undir kodda Vaknaði klukkan fjögur í nótt við að Stubbalingi var orðið mál að míga - og skyldi engan undra. Fór svo aftur upp í rúm og las þar til ég sofnaði - aftur
Er núna á leiðinni í leikfimi - hver sagði að sundleikfimi væri bara fyrir gamalt fólk? Ég er eldri en gamla fólkið - allavega í gær Í dag liggur betur á mér, ég hringdi nokkur símtöl svona prívat og persónulega, var dónaleg við þá sem voru ókurteisir við mig og kurteis við hina..... og sjá; Ég boða yður frið og fögnuð, stundum þarf að vera "ákveðinn"
Á meðan ég man og er vakandi Vitiði um einhvern sem á hornsófa með tauáklæði og vill losna við hann?
Bígúd doktor fílgúd
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
22.1.2008
Dúllerí og drukknuð mús!
Ég var eins og drukknuð mús þegar ég loks komst heim aftur í morgun klukkan rúmlega átta. Þá vorum við Lokharður Ljónshjarta búin að ganga út að kirkju, fá syndaaflausn og ganga til baka í svo miklu roki að ég stóð varla enda hálkan ekki smánarleg á svæðinu. Stúfurinn gekk hlésmegin....
Fór svo í leikfimi og komst að því að þakið á sundlauginni lekur!! How convenient is that?? Var í afspyrnulélegu skapi alveg fram í miðja leikfimi. Þá fann ég endorfínkippina kikka inn. Mæli með sundleikfimi hjá Betu! Svíkur engan - ótrúlega erfitt á köflum og þú kemur alltaf betri manneskja "uppúr"
Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim var að kíkja á netið og sjá: "Óveður á Hellisheiði" hringdi strax í alla mína drengi og bannaði þeim að fara yfir Heiðina fyrr en ég segði: "má". Hringdi svo í minn nýja vinnuveitanda, sem er staddur erlendis, og sagði honum að ég hefði fyrirskipað að drengirnir dúlluðu sér í smiðjunni fram að hádegi. Hann var samþykkur því að þeir færu ekki yfir Heiðina en vildi að þeir ynnu í stað þess að dúlla sér. Leggur líklega einhverja aðra merkingu í það en ég.........
Þegar ég svo hringdi til að gefa grænt ljós á Heiðina síðar í morgun var mér sagt að það væru allir löööngu farnir sem hefðu á annað borð ætlað yfir............ Það ynnu sko engar kjéddlingar þarna...
Ég var afskaplega þakklát skelkuðu drengjunum tveimur, í gærkveldi, því þegar við Stúfur Stubbalings laumuðum okkur út í kvöldpissið ákvað hengjan sem eftir var, að falla - á mig!!! Það var hvorki þægilegt né notalegt svo maður snúi nú frasanum hans Binga við - sem einhverntíma um daginn sagðist vera bæði hryggur og leiður, ætti kannski að kíkja í samheitabók drengurinn sá - en sumsé ég var afskaplega þakklát fyrir að ég fékk bara afgangsjökul í hálsmál og höfuð.
Næst liggur fyrir að vinna Þjóðverja í Noregi. Heyrði Adolf Inga tala við Loga í hádeginu. Leikurinn leggst vel í mig! Hvað haldiði að við töpum stórt?
pís
21.1.2008
Vönduð vinnubrögð og önnur vinnubrögð
Tvíburar: Vertu svellkeldur og tjáðu þig óaðfinnanlega eða láttu ekkert uppi um plön þín. Hvort sem þú gerir, þá þarftu ekki að svra heimsulegum spurningum.
Svona hljóðar stjörnuspáin mín fyrir daginn í dag. Stafsetningarvillur eru Morgunblaðsins enda mundi ég ALDREI láta svona hamfarir sjást eftir mig á prenti!! Skil ekkert í þessari spá kann enda ekki að vera svellkeld.....
Annars er skriðjökullinn að mestu horfinn - fékk tvo skelkaða drengi í heimsókn í dag. Þeir sögðust varla hafa ætlað að þora inn og hafa þó marga fjöruna sopið............
Þeir ruddu mestöllum snjó af þakinu hjá mér og mokuðu svo tröppurnar á eftir - dúllurnar
18.1.2008
Skriðjökull á þaki!
Sjónvarpsloftnetið slútir niðurlútt í suðuátt, skammast sín líklega fyrir dagskrána sem boðið er uppá..... þannig að ég sá aumur á því sótti kúst niður og fór út að berja niður klaka. Skilyrðin hafa hinsvegar sjaldan verið betri
Hjá mér slútir nefnilega myndarlegur skafl fram af þakinu. Hann hefur verið að smástækka undanfarna daga og safna í sig bleytu og frosti til skiptis. Á nóttunni vakna ég við skruðninga þegar hann skríður fram eins og stökkbreyttur skriðjökull. Þetta er fremur erfið staða því hann valdi að skríða fram af þakinu þar sem inngangurinn er.....eða útgangurinn ef þannig ber undir. Þetta veldur því að ég þori ekki að hafa Stúf Stubbalings úti á daginn, eins og honum finnst nú gaman að liggja gáfulega á tröppuskaflinum og stúdera umferðina - er líklega að velta því fyrir sér hvaða bílategund væri skemmtilegast að elta svona ef ég ætti að skjóta algjörlega blint á hvað þetta krútt hugsar - því ég óttast að skriðjökullinn ryðjist þá fram af þakinu og lendi á þeim eina sem nennir að búa með mér Mér er meira sama um aðra sem þurfa að nota innganginn.
Minn nýji yfirmaður tilkynnti mér það í morgun að þetta hlass (og hann var ekki að tala um mig....) mundi steinrota mig ef það legði af stað. Allavega er ég búin að létta á farginu - ekki mikið en samt....... slepp kannski bara með höfuðverk ef það leggur af stað um leið og ég.
Ég heyrði einhversstaðar að aldraðir og öryrkjar fengju aðstoð við að moka snjó af þaki og var sátt við að bíða - en svo fór ég að reikna......
Annars er ég afskaplega sátt við lífið og tilveruna þessa dagana. Við tókum því bara rólega í morgungöngunni, því það er föstudagur og ég var búin að vinna mér inn fyrir því að byrja ekki á "slaginu" í morgun. Við hnusuðum af allri lyktinni í snjónum, eltum slóð í gegnum djúpa skafla, heilsuðum uppá stelpuna sem er alltaf á leið í vinnu á þessum tíma og liðuðumst algjörlega sauðslök meðfram ánni.
Framundan er helgin í allri sinni dýrð
15.1.2008
Rósakaup í stórhríð ;)
Úr því að hlutabréfamarkaðurinn er í frjálsu falli, ákvað ég að vera klók og fjárfesta í list
Var einu sinni sem oftar að skoða myndirnar hennar Zordísar þegar allt í einu ein myndin hennar höfðaði svo sterkt til mín. Ég fór dag eftir dag og kíkti á myndina "mína". Einn daginn datt mér sá hræðilegi möguleiki í hug að einhverjum öðrum litist jafnvel á Rósina mína og það varð til þess að ég ákvað að hafa samband við listakonuna. Það er skemmst frá því að segja að í dag er ég stoltur eigandi þessarar myndar. Svei mér þá ef ég höndlaði ekki smábita af hamingjunni með þessum gjörningi. Er allavega miklu sáttari við þessi kaup en ég væri með að eiga pappírssnifsi í einhverju fyrirtæki úti í bæ...........
Nú bíð ég róleg eftir Rósinni minni - er búin að finna stað fyrir hana, hvað þá annað.
Seinna meir, þegar Zordís verður orðin frægari, bíða mín listaverkasalar í haugum og vilja selja Rósina mína á uppboði. Þá ætla ég að fara í rauðu kápuna mína, setja á mig rauða varalitinn og vera óhagganleg!
Mér finnst svo gaman að vera óhagganleg
14.1.2008
fósturvísir....
Í "gamla daga" þegar ég var lítil var vísir að leikskóla þar sem barnaskólinn er nú til húsa. Tjah.... annar þeirra allavega
Ég "fékk" að fara - ekki það að ég vildi það endilega. Ég vildi bara vera heima og leika mér við krakkana í götunni eins og venjulega en sjálfsagt hefur þetta þótt mikil bylting og öll börn haft gott af því að fara á leikskóla. Það eina sem ég man frá þessum dögum er hve mikið mér var mál að pissa en þó ég hefði átt líf mitt að leysa þorði ég ekki að segja fóstrunni frá því eða eiga við hana nokkur önnur samskipti. Ég hef sjálfsagt verið eitt af þessum afskaplega "þægu" börnum þótt í reyndinni væri ég svo feimin að ég þorði ekki að eiga nein samskipti, hvorki við önnur börn á leikskólanum né margumrædda fóstru. Nú er ég í leikfimi með þessari sömu fóstru tvisvar í viku og þegar ég segi henni frá því hve mikið ég þjáðist í den af feimni við hana og aðra þá hlær hún eins og tröllskessa í afmæli!!
Er það nema vona að maður hafi verið hræddur?
Mér þykir samt voða vænt um hana kjéddlinguna