Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
31.12.2007
Annáll 2007
Á miðnætti hefst nýtt ár. Þá er við hæfi að líta um öxl og gera upp liðna daga.
Árið sem er að líða hefur verið mér erfitt fyrir margra hluta sakir en það er með erfiðleikana eins og svo margt annað í lífinu að ef tekið er rétt á málum þá má alltaf læra og þroskast af reynslunni. Ég hef líka sannreynt ýmislegt á árinu því eins og oft vill verða á ögurstundum finnur maður hverjir eru vinir í raun, hverjum má treysta og hverjir eru ekki þess virði að eyða tíma sínum á.
Mér finnst ég vera rík. Ég á systkini sem standa með mér í gegnum þykkt og þunnt. Ég á vini sem ég get, hvenær sem er, beðið að bera mínar byrðar með mér og það er ekki lítils virði. Mínir vinir og ættingjar eru þyngdar sinnar virði í gulli. Það er þeim að þakka að ég komst ósködduð í gegnum minn hildarleik á árinu
Ég byrjaði að blogga á árinu. Mest fyrir tilstilli Jennýjar Önnu – sem var minn fyrsti bloggvinur og heimtaði að ég skrifaði eitthvað sem hún gæti lesið, sagði að til þess væru bloggvinir ;)
Ég missti vinnuna fyrir m.a. bloggið, sem mér finnst enn dálítið fyndið en þó meira hallærislegt. Hver nennir að liggja yfir bloggi miðaldra húsmóður og reyna að lesa eitthvað út úr því sem hugsanlega gæti staðið þar um einhvern sem þú þekkir kannski? Ég fékk aðra vinnu – þó ekki fyrir bloggið – heldur út á sjálfa mig! Í þeirri vinnu er ný áskorun á hverjum degi þannig að þegar allt kemur til alls þá græddi ég á því!
Ég kynntist líka mörgu góðu fólki í bloggheimum, sem hefur ekki reynst síðra í mannheimum. Rakst á Gulla, "gamlan" skólafélaga úr ML. Alltaf gaman að finna gamla félaga aftur og fá að fylgjast með hvað á daga þeirra drífur og síðast en ekki síst fann ég Fanney aftur. Dýrmæta vinkonu frá því í gamla daga
Ég tók þátt í stofnun hlaupahóps með Möggu. Hópurinn samanstóð af Möggu, mér og Lokharði Ljónshjarta, sem ennþá er sá sprettharðasti í hópnum. Hópurinn þ.e. ég og Magga tókum þátt í Reykjavíkurmaraþoni og var ég að taka þátt í fyrsta sinn. Við hlupum 10 km. og ég fyllist enn stolti við tilhugsunina að hafa komið hlaupandi í mark þrátt fyrir snúna fætur sem hver antikstóll hefði verið stoltur af og þó hvatningarhrópin við endalínuna hafi kannski flest verið ætluð fyrsta maraþonhlauparanum veit ég í hjarta mínu, að sumir stóðu þarna og görguðu á mig
Eins og sannur Íslendingur get ég ekki látið hjá líða að minnast á veðrið á árinu....... Vorið var blautt. Sumarið var sumar hinna góðu veðra á meðan haustið, og það sem af er vetri, verður í framtíðinni kallað haust og vetur hinna miklu lægða.
Ég hef ákveðið að árið 2008 verði mér gott. Héðan stefna allar leiðir upp á við og við hvert horn bíða mín ný ævintýri. Vona að nýja árið færi ykkur einnig frið og kærleik
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
30.12.2007
Pjúff.....
.....hvað það er klikkað veður úti. Var að koma úr morgungöngunni sem var óvenju stutt í þetta sinn. Ég varla stóð og hraktist eins og spörfugl á milli ljósastaura Ég get alveg tekið undir orð Vegagerðarinnar um að það sé ekkert ferðaveður!!
Ég hef verið að undirbúa Lokharð Ljónshjarta undir Gamlárskvöld, með dyggri aðstoð bæjarbúa, sem sjá um verklega þáttinn. Ég segi honum hryllingssögur af litlum stríðshrjáðum hundum í Kosovo, þar sem hver dagur er Gamlársdagur! Hann lætur sem hann skilji ekki inntakið og heldur áfram að stara út um gluggann með eyrun aftur á hælum. Ég bæti þá við sögu um útilegumann sem varð úti vegna þess að hann borðaði snjó - ekki að það komi málinu neitt við þannig séð en sagan var góð - það var þó ekki fyrr en ég bætti við sögu um hund sem bjó í Kína að hann sá að hann hafði það nú ekki svo skítt
Regnið lemur rúðurnar, vindurinn hvín og blæs, hundurinn er nýþurrkaður og steinsefur og nú ætla ég að skríða í rúmið aftur og njóta þess að hlusta á óveðrið úti á meðan ég les. Var að ljúka við bók sem heitir Undir yfirborðinu og er eftir Noru Roberts. Ágætis bók, góður stígandi í henni en á köflum dálítið fyrrisjáanleg. Bók sem gott er að lesa til afþreyingar. Nú er ég að lesa bók sem heitir Prinsessur eftir Leó Löve. Eins gott að átta sig á þeim líka þar sem ég er orðin nokkuð vel áttuð á Dramadrottningum
Veriði inni í dag ef þið mögulega getið. Það er Sunnudagur og þá á maður alltaf að gera það sem mann lystir
Ég er á því að það eigi að banna flugeldasölu til almennings!!
Nú verða einhverjir reiðir, en mér er bara sléttsama! Björgunarsveitir eiga að vera á fjárframlögum frá ríkinu en ekki þurfa að reiða sig á sölu flugelda um áramót og stuðla þar með að slysum. Íþróttafélög hafa tekjur annarsstaðar frá og um flugeldasölu á vegum einstaklinga ætla ég ekki einu sinni að fjölyrða.
Um hver einustu áramót verður slys af völdum flugelda og/eða blysa. Enda fólk í misgóðu standi í misjöfnum veðrum að skjóta upp. Í gærkvöldi horfði ég á hvar kveikt var í rakettu inni í bíl og henni síðan fleygt út um bílgluggann á ferð! Tilviljun ein réði því í hvaða átt þessi raketta sprakk. Þetta sá ég ekki bara einu sinni og ekki bara tvisvar. Börn og unglingar standa, eins og hverjir aðrir hryðuverkamenn, á hverju horni með kínverja og sprengjur og sprengja í erg og gríð.
Svo stærum við okkur af öllu saman og útlendingar flykkjast til landsins að horfa á ósköpin.
Hættum´essu, nú þegar strax!!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.12.2007
Hrín við Hrönn
Mér leiðast áramót!
Allt á að vera svo svakalega skemmtilegt! Allt á að heppnast svo rosalega vel!! Allir eru svo hrikalega drukknir og í svo mikilli þörf fyrir uppgjör!!! Einu sinni, þegar ég var skvísa í Reykjavík (og svona til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ég nú skvísa í sveitinni....) umgekkst ég stóran vinahóp, þessi hópur hafði þekkst frá blautu barnsbeini og allir voru góðir vinir, misgóðir vinir, að vísu, eins og gengur en á Gamlárskvöld var alltaf teiti hjá einhverjum af hópnum. Þetta tiltekna Gamlárskvöld var teitið haldið í Kópavogi, ég sat í stofunni í góðu glensi og hópurinn skemmti sér ágætlega, að ég hélt, en ég hef nú alltaf verið frekar sljó...... eníveis, ég brá mér afsíðis - að míga í einrúmi, eins og við segjum svo ódannað hér í dreifbýlinu, og þegar ég kom til bara var allt í háalofti. Strákarnir að slást inni í stofu og stelpurnar grátandi, allar sem ein í eldhúsinu! Ég virti fyrir mér atganginn um stund og velti því afar heimspekilega fyrir mér hvort það hefði virkilega haft þessi áhrif að ég yfirgaf samkvæmið eina míkrómínútu í tíma alheimsins....... ein ómissandi ...... hringdi síðan á leigubíl og fór heim að sofa. Lofaði sjálfri mér því að aldrei skyldi ég taka virkan þátt í Gamlárskvöldi framar og hef staðið við það. Gamlárskvöld er eina kvöldið á árinu sem ég fer edrú í sæng
Hafði nefnilega lent í því árið áður að ein sem ég þekki arfleiddi mig að börnunum sínum, svona til vonar og vara, ef hún finndist ekki framar. Þá byrjuðu nú grímurnar tvær að renna á mig, ég meina ég hef aldrei haft gaman af börnum......
Ég segi ykkur það satt mér var ekki skemmt þá og mér er ekki skemmt nú! Hugsanlega er þó skýringin sú að ég var bara í svona óvönduðum félagsskap? Tek allavega enga sjensa á félugum um áramót og dvel með sjálfri mér í góðu yfirlæti ásamt appelsíni og smákökum, fer jafnvel bara snemma að sofa ef friður gefst fyrir þessum fargins flugeldum!!! Vona svo sannarlega að það viðri ekki vel fyrir loftleikfimi í ár.
Að þessu sögðu má ljóst vera að mér leiðast Gamlárskvöld og bið ég ykkur vel að lifa og óska ykkur góðra stunda.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.12.2007
Ofan gefur snjó á snjó
Kíkti út um gluggann minn rúmlega fimm í morgun, þá var ég búin að bylta mér, glaðvakandi, síðan klukkan þrjú. Er líklega búin að sofa nóg yfir jólin..... Allavega þegar ég kíkti þarna út um gluggann í morgunsárið sá ég að úti var of mikið af fólki fyrir minn smekk svo ég hélt bara áfram að sofa í klukkutíma í viðbót. Þá voru síðustu skemmtanaglöðu einstaklingarnir farnir heim og öllu rólegra yfirbragð yfir öllu, sem hentar mér og Stubbaling bara vel......
Þurfti svo aðeins að snúast eftir leikfimi og þegar ég læddist í eina beygjuna byrjaði bíllinn að skransa hjá mér, ég slædaði til og frá eins og hver annar gæji og vúhúú hvað það var gaman. Héðan í frá frá slæda ég í allar beygjur Þið vitið þá hvaða kjéddling það er ef þið lesið um það í blöðunum að virðuleg kona fyrir austan fjall hafi verið tekin fyrir slide.......
Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó...... Vitiði hver söng þetta lag?
Af hverju segir fólk: "Gleðilega rest........" frá og með aðfangadegi? Síðast þegar ég gáði náðu jólin alveg fram á þrettándann! Mér finnst þetta svipað og ef fólk segði "til hamingju með rest" daginn eftir afmælisdag. En ég sé nú bara í kössum og boxum
Fariði vel með ykkur
26.12.2007
Eitt....
....sem ég er að velta fyrir mér, þar sem ég sit fyrir framan skjáinn og íhuga hvort það verði mikið fyllerí í nótt. Af hverju eru mínusdagar til jóla á dagatali moggabloggs?
Ég er nú svo mikil heimskona að ég hélt að nú væru u.þ.b. 363 dagar til jóla!!
Annars algjör letidagur hjá mér í dag. Svaf og las til skiptis. Jú og svo setti ég upp nýja skoðanakönnun! Allir að kjósa og kjósa rétt Gerði semsagt það sem ég er bezt í! Að gera sem minnst á sem lengstum tíma............
pís
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.12.2007
Jóladagur
Var að koma heim úr jólamorgungöngunni.
Nýfallinn snjór yfir öllu og við Stúfur vorum þau fyrstu út í morgun, fyrir utan einn og einn kött. Mættum svo manni á stórum bíl sem hafði greinilega týnt einhverju. Vona að hann finni það sem fyrst aftur!!
Gærkvöldið var yndislegt. Þrátt fyrir að ég hafi næstum verið búin að eyðileggja það. Fann hvernig í mig seitlaðist pirringur yfir hinu og þessu og var næstum búin að láta hann ná yfirhöndinni þegar ég tók mig taki og ákvað að það væri gaman að elda góðan mat fyrir gott fólk og söngla jólalögin á meðan. Sem betur fer tókst mér að sannfæra sjálfa mig og kvöldið varð dásamlegt. Allt svo afslappað og yndislegt. Maturinn lukkaðist verulega vel. Ég sauð hamborgarhrygg, sem ég var búin að útvatna, til að ná úr honum mesta saltinu. Setti lárviðarlauf, negulnagla og heilan pipar í pottinn með hryggnum og þetta kom mjög jólabragðslega út. Svo sátum við og spjölluðum saman langt fram á kvöld, borðuðum síðan eftirréttinn, sem er algjört sælgæti og bara búinn til einu sinni á ári fyrir möndluna
Fékk margar góðar gjafir. Nokkrar komu mér verulega á óvart og ég þurfti að laumast til að strjúka burtu tár............. Takk Magga
Það var svolítið skondið, dagana fyrir jól að fylgjast með fólkinu koma út úr Bónus með tvær innkaupakörfur hver. Á tímabili varð ég svolítið stressuð yfir því að ég hlyti að vera að gleyma einhverju. Í gær kom í ljós að ég hafði engu gleymt.
Hlakka til dagsins í dag. Dagsskipunin: Lesa, borða, fara út að labba með hundinn og ef við erum heppin kemur Nói, vinur Lokharðs Ljónshjarta með okkur, lesa meira og borða meira.
Lífið er yndislegt og ég tek þátt í því.
24.12.2007
Aðfangadagur
Tvöfaldur uppáhaldsdagur kom í gær. Sunnudagur og Þorláksmessa sem ég held alltaf uppá! Ég fékk góða gesti. Í fyrradag kom Ellen til mín færandi hendi með blóm og cd. Takk Ellen Jössi Björling er aldeilis frábær!! Í gær komu svo Magga og Snæbjörn við hjá mér á leið heim úr skötuveislu.
Ég tók forskot á skötuna og fór í hana á laugardaginn. Ekki góð lykt og ég þorði ekki að smakka einn einasta bita. Borðaði bara þess meira af rófum og rúgbrauði! Nokkurskonar R dagur hjá mér, vantaði bara rauðvín og rósakál
Var að sækja jólatréð niðri í kjallara og nú stendur það úti á tröppum og viðrar sig áður en ég slaka því inn fyrir og skreyti það. Sauð hangikjöt í gær og ætla að sjóða rauðkál í dag. Mér finnst alltaf jólin vera komin þegar rauðkálslyktin fyllir hvern krók og kima
Úti er hvít jörð og öðru hverju skellur hann á með éljum. Nú ætla ég út í kirkjugarð og tendra þar á nokkrum kertum og fara síðan í afmæli! Vonandi er Halla búin að baka nóg af sörum
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.12.2007
Ég hlakka svo til......
Stubbur svaf til sjö í morgun. Ég er löööööngu hætt að láta klukkur hringja á morgnana þannig að við erum bara klukkutíma á eftir áætlun í dag. Sem er allt í lagi Við röltum upp með á, hún er afar ógnandi en ætlar líklega að láta þar við sitja í þetta sinn!
Ég steinsofnaði eftir að dr. House var búinn að koma! Ég hef alltaf heyrt að það væri akkúrat hinsegin. Karlmaðurinn sofnaði þegar hann væri búinn að koma...... Ég komst ekki einu sinni í að lesa nema hálfa blaðsíðu í einhverri leiðinlegustu bók sem ég hef opnað, síðan ég reyndi að lesa "Lífið er annarsstaðar" eftir Milan Kundera - það var hinsvegar alveg rétt hjá honum, karlinum, lífið var allt annarsstaðar fyrir mig í það sinn!
Ég hef komist að því að læf is tú sjort for sillí pípól og boring búkks. En í gær fékk ég bók í hús sem heitir "Undir yfirborðinu" eftir Noru Roberts, ég er ákveðin í að byrja á henni í dag. Læt ykkur kannski vita síðar hvað mér finnst um hana.
Ég hlakka til að byrja á verkefnum dagsins - sem minnir mig á það þegar krakkarnir voru litlir og fengu að gista, einu sinni sem oftar, hjá Óskari vini sínum. Amma hans var göldrótt, mamma hans átti stundum ís og frænka hans nennti endalaust að spjalla við þau. Tilhlökkunin lá í loftinu, þau sátu í sófanum og söngluðu: "mér hlakkar svo til, mér hlakkar svo til......." "ÉG hlakka svo til" sagði ég leiðréttandi, á þönum í kringum þau. Þau horfðu á mig smástund og sögðu svo: "En þú ert ekki að fara að gista hjá Óskari......."
Þessi málfræðikennsla var í boði hússins. Njótið og notið
Í kvöld ætla ég á aðventutónleika í Hótelinu. Þar syngur Kristjana Stefáns og Smári, Gunni og Vignir spila undir. Það er alltaf alveg hrikalega gaman á þessum tónleikum og ég reyni að komast á hverju ári. Í ár ætla ég að mæta snemma og ná góðum sætum.
20.12.2007
Vikan er að klárast....
....og mér finnst hafa verið mánudagur áðan!
Við Stubbalingur gengum upp með á í morgun. Mikið hrikalega er áin ljót í dag. Hún fleytir kerlingar á minnstu eynni - sem er við það að fara í kaf!!
Var að koma heim úr leikfimi. Fantagóður tími hjá Betu enda síðasti tími fyrir jól. Fórum svo nokkrar í heita pottinn á eftir og þangað fengum við kaffi og piparkökur. Frábært framtak hjá starfsfólki Sundhallar Selfoss.
Í vinnunni eru nýjar áskoranir á hverjum degi og jafnvel margar á dag. Í vikunni hef ég talað við Danmörk - tvisvar, það er alltaf gaman að tala dönsku - sent mail til Svíþjóðar og lært pólskan framburð Ekki slæmt, enda vinn ég bezt undir pressu og trúðu mér, það er rosa pressa að læra pólsku!! Í gær sagði ég við minn nýja yfirmann, þegar hann hringdi til að taka stöðuna í lok dags, að héðan í frá ætti hann að byrja hvert einasta samtal okkar á því að segja: "Mikið rosalega er ég heppinn að hafa þig í vinnu" Hann tók ekkert illa í það.....
Dr. House er búinn að boða komu sína til mín í kvöld og ég er ekki frá því að ég fríkki með hverjum deginum