1.1.2008
Dæmisaga um Varg!
Mér féllust hendur þegar drengurinn mætti í áramótamatinn til móður sinnar. Hann er hundapía fyrir vin sinn og sagði mér ábúðamikill að "maður skilur ekki hunda eftir eina á Gamlárskvöld!!" Ég hefði getað þulið upp 10 ástæður á nó tæm en sleppti þeim....... flestum. Sagði honum hinsvegar að hann sæi þá um þessa deild á heimilinu, staða konunnar væri á bak við eldavélina
Eftir smátiltal og tiktúrur tókst honum að lempa hundana til þannig að þeir ruku ekki saman. Ég heyrði hann m.a. segja þeim að hann hefði það fram yfir þá að vera með þumla og þess vegna væri hann "hundurinn" sem réði............ Þetta blessaðist allt saman þótt Lokharði Ljónshjarta þætti að sér vegið og þegar bæjarbúar fundu hryðjuverkamanninn í brjósti sínu og hleyptu honum óbeisluðum út, lá Vargur og svaf frammi í eldhúsi þannig að Ljónshjartað ákvað að líklega væri þetta allt í lagi - gat allavega ekki verið minni en hinn og hlammaði sér við hlið hans og svaf líka
Þessi dæmisaga, um að aldrei skyldi kona ákveða fyrirfram að eitthvað komi aldrei til með að ganga upp, var í boði hússins. Hvað með það þó ég hafi þurft að ryksuga og skúra í dag? Maður skilur ekki hunda eftir eina á Gamlárskvöld!! Spurning hvort ég býð ekki Vargi í heimsókn næsta Gamlárskvöld og sleppi því þá kannski að taka til síðasta dag ársins??
Fórum í okkar hefðbundnu nýjársgöngu með Nóa í dag. Sáum enga álfa í dag en óvenjumargir úr mannheimum voru á ferli! Er fólk alveg hætt að hrynja í það á Gamlárskvöld og vera ómögulegt fram eftir fyrsta degi ársins?
Athugasemdir
Það er víst þó nokkuð af sálum sem eru að falla í það á gamló. Erill og vinir hans voru í fullu fjöri.
Bið að heilsa mönnum og málleysingjum.
Jenný Anna Baldursdóttir, 1.1.2008 kl. 20:03
Því betur sem ég kynnist mönnunum, því vænna þykir mér um hundinn minn sagði Mark Twain forðum og vissi hvað hann söng enda djúpvitur maður, og hvað eru nokkur hundahár á milli vina .
Það tekur því ekki orðið fyrir mannfólkið að hrynja í það núorðið, úrvalsvísitalan sér orðið um allt það hrun sem þörf er á.
Róbert Tómasson, 1.1.2008 kl. 20:10
Ég skal skila því Nenna litla
Mikið til í þessu Robbi - enda er ekki fólk fíbbl og hlutabréfamarkaðurinn í frjálsu falli?
Hrönn Sigurðardóttir, 1.1.2008 kl. 20:18
Hef grun um að mikið hafi lekið niður um kverkar bæjarbúa og nærsveitamanna. Hér lak ekkert nema vatn niður kverkar konu, maður skemir ekki heilsuna viljandi. Hafðu það gott og við hittumst fljótlega
Ásdís Sigurðardóttir, 1.1.2008 kl. 21:12
Mín áramót voru róleg og láku bara malti og appelsíni
Marta B Helgadóttir, 2.1.2008 kl. 01:09
hehehehe ég hélt að það bergmálaði hér.............
Hrönn Sigurðardóttir, 2.1.2008 kl. 08:30
ég er nú sammála honum syni þínum hrönn ! við höfum aldrei í þessi 13 ár sem við höfum haft hund haft áhyggjur af þessu því iðunn okkar blessunin var alveg sallaróleg á gamlárskvöld í öll sín ár. lappi litli hefur líka alltaf í þessi 3 ár þar að segja verið rólegur á gamlárskvöld með henni kæru iðunni.núna á gamlárskvöld var lappi einn því iðunn er á himninum og þá gerðust nú aðrir hlutir. hann varð svo hræddur að hann hljóp að heiman, var í burtu í tvo tíma öllum til mikillar angistar. allir gestirnir löbbuðu um bæinn og kölluðu og kölluðu, litla heimasætan og barnabarnið gengu með luktir í myrkrinu og grétu yfir þessum hræðilega atburð. þegar ég svo var að hringja í lögregluna sem tjáði mér að það væri búið að auglýsa eftir 4 hundum, þá kom lappi litli hlaupandi inn i fangið mitt, og veik ekki þaðan það sem eftir lifði næstur. ég kem til með að vera mikið vakandi yfir honum framvegis blessuðum.
hafði það gott þú og ljónshjarta
AlheimsLjós til þín
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 2.1.2008 kl. 12:25
Auðvitað hafi hann rétt fyrir sér Steina mín
Hrönn Sigurðardóttir, 2.1.2008 kl. 13:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.