14.9.2007
Sögur úr sveitinni.....
Fór til læknis í gær að fá niðurstöður úr blóðprufu og láta mæla blóðþrýsting. Allt svona glimrandi gott úr blóðprufunni - einna helst að hann vildi fá mig til að minnka gleðipilluskammtinn. Auðvitað lét ég það eftir honum, hann er læknirinn og myndarlegur líka.......
Það þýðir að á morgun tek ég bara eina töflu í stað tveggja sem ég tek daglega! Kvíði svolítið fyrir. Þetta eru töflur fyrir skjaldkirtil en hann var tekinn úr mér árið sem ég skildi...... Ekki amalegur missir það. Á einu bretti missti ég mann og skjaldkirtil og sakna hvorugs! Eníveis, allar breytingar á töflumagni þýða það að ég verð eins og spýtukerling - gæti verið systir Gosa.
Á meðan læknirinn var að mæla blóðþrýstinginn sagði ég honum sögur. Hann hummaði og jammaði og þóttist alveg hafa áhuga á því sem ég var að segja en endaði svo á því að segja mér að þegja ég hefði svo truflandi áhrif á blóðþrýstinginn - og hann var að tala um minn þrýsting, ekki sinn. Það var nú ekki laust við að mér sárnaði.
Er búin að mála herbergið - drengurinn ljúfi - málaði loftið fyrir mömmu sína. Þrisvar!! Nú þarf ég bara að spreða sílíkoni í rifur sem ég kom auga á hjá listum í lofti á meðan ég málaði veggina. Allt annað að sjá herbergið sem héðan í frá verður kallað Austursalur.
Sótti mömmu út á flugvöll í gær. Hún var að koma frá Spáni. Búin að vera þar í þrjár vikur. Uppgötvaði um leið og ég sá hana, hvað ég hafði saknað hennnar. Knúsaði hana og sagði henni frá því. Er ekki frá því að pabbi gamli hafi saknað hennar jafnmikið - allavega brosti hann eins og sól í heiði allan tímann á meðan við biðum í flugstöðinni. Komst svo heim rétt á undan sendibílnum sem fauk undir fjallinu í gær. Hrikalegt rok. Ætlaði að taka myndavélina mína með og taka myndir af briminu við Vatnsleysuströnd, senda íbúum þar og spyrja þá af hverju þeir kalla þessa strönd Vatnsleysuströnd en steingleymdi myndavélinni. Þannig að þetta djók verður að bíða betri tíma.
Ég veit hinsvegar af hverju þessi strönd heitir Vatnsleysuströnd! Það er vegna þess að í gamla daga var vatnsból í Kúagerði og síðan ekkert vatn þar til í Grindavík. Þá vitið þið það líka......
60 ára afmæli Selfosshrepps verður haldið hátíðlegt um helgina. Heilmikið um að vera og skrúðganga á eftir. Íbúar eru hvattir til að skreyta eins og vera ber í afmæli. Öll hverfi fengu úthlutað einum lit til að skreyta með og ég var svo stálheppin að mínu hverfi var úthlutað appelsínugulum lit, sem er uppáhaldsliturinn minn, þannig að nú fer ég og hengi út öll appelsínugulu fötin mín. Viðra appelsínugula rúmteppið mitt og hef að sjálfsögðu kveikt á appelsínugula lampanum í eldhúsglugganum.
Fer svo síðar og hirði verðlaunin fyrir bezt skreytta húsið
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dútl heima við, Dægurmál, Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Það er gott Hrönn mín að það kom gott út úr þessu Hjá lækninum en sagði hann þér að þegja. Til hamingju með Selfosshrepp baraorðin 60 ára já þú verður með flottasta húsið í bænum og flottasta skvísan líka
Kristín Katla Árnadóttir, 14.9.2007 kl. 19:52
Takk Katla mín
Hrönn Sigurðardóttir, 14.9.2007 kl. 20:05
Hann hummaði og jammaði og þóttist alveg hafa áhuga á því sem ég var að segja en endaði svo á því að segja mér að þegja ég hefði svo truflandi áhrif á blóðþrýstinginn - og hann var að tala um minn þrýsting, ekki sinn. Það var nú ekki laust við að mér sárnaði. Þú ert frábær.
Gott að fá mömmu heim, alltaf. Og góða skemmtun á hátíðini. Ég er viss um að þú vinnur með allt þetta gula í kring um húsið þitt Hrönn mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.9.2007 kl. 20:41
Hrönn Sigurðardóttir, 14.9.2007 kl. 22:13
Góð færsla hjá þér Hrönn. Gangi þér vel og eigðu skemmtilegt Selfossafmæli.
Marta B Helgadóttir, 14.9.2007 kl. 22:24
Ég hló mig máttlausa þarna kjéddlingarskar. Má ekki á milli sjá hvort gladdi þig meira, skjaldkyrtils- eða eiginmannsmissirinn? hahaha
Lampinn frá Hannyrðaverslun Írisar? Muhahahaha
Jenný Anna Baldursdóttir, 14.9.2007 kl. 22:54
Ég vona að þú takir þát í umræðunum í Leshringnum á morgun sunnudag.
Marta B Helgadóttir, 15.9.2007 kl. 11:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.