Græn orka um áramót.

Ég var að hugsa, í nótt þar sem ég lá andvaka, um alla þessa hreinsunar- og heilsukúra sem eru í tízku um áramót. Einhverjir borða og drekka bara það sem er grænt - og þá á ég ekki við gamalt kjöt frá jólunum - aðrir drekka heitt vatn með sítrónusafa og sumir drekka heitt vatn með engifer svo las ég um daginn að þorskalýsi væri gott fyrir liðina. Einhverjir ganga svo langt í áramótahreinsunum að fara alla leið til Póllands í allsherjarhreinsun. Allt þetta les ég andaktug og kinka kolli um leið og ég hugsa: "já, þetta ætla ég líka að gera, þetta er sniðugt...." nema þetta með Pólland, svo langt geng ég ekki. Ef ég fer til Póllands einhverntíma þá verður sú ferð farin til að upplifa matarmenningu og horfa á arkitektúrinn þeirra, en það er nú önnur saga.

Það er bara einn galli, eða kannski ég ætti fremur að kalla það hæng, á þessu heilsufári öllu. Þetta byggist allt á því að það líði amk. klukkutími frá inntöku þar til innbyrða má morgunmat og þar kem ég að því sem ég var að hugsa í nótt. Því ef ég ætla að framkvæma alla þessa gjörninga og láta alltaf líða klukkutíma á milli þá reiknast mér til að fólk þurfi að vakna um þrjúleytið á morgnana sem er ansi snemmt og ég var jafnvel orðin of sein þar sem ég lá og bylti mér í nótt. Við vitum líka öll að svefn er svo nauðsynlegur fyrir heilsuna að ég tali nú ekki um útlitið.

En eins og segir í einhverri bók - örvæntið eigi - ég datt niður á lausnina. Ég blanda bara öllu saman í einn ógeðsdrykk og málið er dautt Sideways


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahahahaha Góð!

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.1.2013 kl. 12:18

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Er einmitt í svipuðum hugleiðingum, með allskonar hollustudrykki :)  Kannski er æðislegt að henda þessu öllu í blandara og njóta. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 5.1.2013 kl. 02:44

3 Smámynd: Marta B Helgadóttir

ha ha ha góð :)

Ég er að reyna að búa til 6 kílóa áætlun, veit ekki hvar á að byrja. Hef hingað til borðað það sem mig langar í þegar mig langar í það. Það er ekki mér líkt þegar ég hef fengið góða hugmynd (að mér finnst) að hika við að framkvæma. Held að þessi græni litur sé það sem hindrar mig í að byrja. ;)

Marta B Helgadóttir, 5.1.2013 kl. 04:36

4 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

:P Já prófaðu Jóna Kolbrún.

Marta! Þú hefur ekkert að gera við 6 kílóa áætlun nema hún sé hönnuð til að bæta þeim við.

Cesil ♥

Hrönn Sigurðardóttir, 5.1.2013 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband