27.1.2010
Nostalgía....
Ég gekk út snemma í morgun, í hunda og kattarfylgd. Mætti manni en við lifðum ekki hamingjusöm upp frá því.... allavega ekki saman - hugsanlega þó sitt í hvoru lagi.
En það var nú ekki það sem ég ætlaði að segja frá. Það sem ég ætlaði að segja var að það var svolítill haustfílingur í morgninum - sem er náttúrulega fráleitt. Það er janúar og meira að segja alveg að koma febrúar.... - sem minnir mig á það... er ekki nóg að hafa útborgunardag annan hvern mánuð? Ég meina það er kreppa. Svona mætti spara alveg böns af peningum. Mér finnst ég ekki gera annað en reikna út laun og borga...... - segir konan og lætur eins og hún þurfi að greiða launin úr eigin vasa ...en nú er ég aftur komin út í allt aðra sögu.
Svo ég reyni nú að halda mig við morguninn þá keyrði fram úr okkur bíll þegar við vorum að nálgast heimaslóðir aftur, ekkert óeðlilegt í sjálfu sér við það, við búum jú við þjóðveginn, en málið var að það fylgdi bílnum svo mikil vindlalykt..... og á einu augabragði var ég orðin fjögurra ára og stödd með mömmu í Geirabúð. Ég man nú ekki lengur hvort hún hét Geirabúð sjálfsagt ekki en eigandinn hét allavega Geiri og var afskaplega skemmtilegur maður fannst mér. Hann reykti vindla - þetta var á þeim árum þegar mátti reykja vindla... meira að segja inni - og seldi fatnað og aðra vefnaðarvöru. Þið vitið..... rennilásar í haugum, garn í bunkum, efni í ströngum og svo peysur, buxur og sokkar.....
Mamma keypti handa mér bláa peysu með rauðu og hvítu mynstri og alla tíð síðan var þessi peysa kölluð vindlapeysan. Það lagði nefnilega af henni vel lengi mikla vindlalykt.
Ég var strax þarna orðin mjög vangæf á föt, sem sýnir okkur náttúrulega bara að snemma beygist krókurinn og allt það...... en þessi peysa var alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér.
Hvar ætli hún sé núna?
Athugasemdir
Ef peningarnir hans Björgólfs Thor er í moneyheaven, þá er peysan þín líklega í clothheaven? ekki satt
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.1.2010 kl. 09:28
Jú.... eða peysuríki?
Hrönn Sigurðardóttir, 27.1.2010 kl. 10:32
Æ ég var svo hrædd um að þetta væri einhver hálfkveöin vísa, þoli ekki sollis vísur en sem betur fer botnaðir þú færsluna með peysusk0mminni.
Ía Jóhannsdóttir, 27.1.2010 kl. 10:50
Já - það tók samt smá útúrdúra ;)
Hrönn Sigurðardóttir, 27.1.2010 kl. 10:59
Af hverju ert þú ekki fjármálaráðherra ? Þú ert í það minnsta ákaflega vanmetin Hrönn. Íhugaðu forsetaembættið.
Anna Einarsdóttir, 27.1.2010 kl. 11:56
hehehe ég er ekki viss um að ég yrði mjög vinsæl hjá strákunum mínum ef ég borgaði þeim bara annan hvern mánuð....
....en - fjármálaráðherrann er ekkert að kafna úr vinsældum hvort eð er?
Hrönn Sigurðardóttir, 27.1.2010 kl. 11:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.