Færsluflokkur: Sjónvarp
21.6.2007
Grunsamlegar mannaferðir um blánótt....
Ég er andvaka.....
.....vaknaði fyrir röskum tveimur klukkutímum við að það var eitthvað illt á sveimi! Tók strax þá ákvörðun að fara öryggishring um íbúðina, fann drenginn inni í stofu að horfa á Prison Brake - ekkert illt þar - hundinn sofandi frammi - ekkert illt þar - engir ofnar láku, engir innbrotsþjófar biðu mín handan við hornin með illyrmisleg glott á vörum og kúbein í höndum.....
Samt var svo mikill óhugur í mér að ég tók meðvitaða, helkalda ákvörðun að senda drenginn út með hundinn, þeir gætu þá migið í leiðinni.... Já ég sendi drenginn, sem mér þykir tiltölulega vænt um út með labbakút, bláköld og hefur nú litli labbakútur ekki það orð á sér að vera hugumstór!
Sem þeir komu niður tröppurnar, fundu þeir möndulveldi hins illa, þá miklu uppsprettu. Undir tröppunum hjá mér sátu þrír ungir menn í bíl, þeim brá heldur í brún, enda drengurinn ekki árennilegur, fremur en móðir hans, og þeir gátu ekki með nokkru móti vitað að hundurinn gerir ekki flugu mein! Drengurinn spurði þá bara sisona, algjörlega óttalaus, hvort hann væri eitthvað að trufla þá en þeir sögðust bara vera að ztjilla..... Mávarnir hlógu hæðnislega á næsta plani á meðan þeir týndu upp rusl dagsins..... Nú háttar þannig til að í húsum allt umhverfis mig er mikið af allskyns skjávörpum, tölvum og flatskjám... og innbrot hafa verið nokkuð tíð, sérstaklega seinni part vetrar. En svo ég víki nú aftur að atburðarrás þá ákvað drengurinn að reykja eina sígarrettu uppi á palli, hann gekk síðan aftur niður til þeirra þar sem þeir voru búnir að færa sig að næsta húsi í ztjillingu og benti þeim blákalt á að þeir skyldu átta sig á því að það mundi ekkert koma fyrir í okkar húsi og ekki heldur í næstu húsum, þeir urðu fremur lúpulegir, sögðust bara vera að koma úr bænum (aðkomumenn sjáiði til.....) og vera á leiðinni á Eyrarbakka....
Á meðan á öllu þessu stóð, keyrðu þrír lögreglubílar fram hjá húsi mínu, þeim þótti engin ástæða til að hægja á sér einu sinni, enda ekki öllum jafn gefið að vera svona næmir fyrir hinu illa eins og mér....
En nú var ég að uppgötva að ég gleymdi að fara öryggishringinn í kjallaranum og hjólið mitt er úti, mitt eina farartæki! Hvað geri ég? Vek drenginn? Sendi hundinn niður? Áttar hann sig á því að tékka á hvort hurðin er læst? Eða fer ég sjálf? Og hverf?
Ef það heyrist ekkert frá mér, þá voru þeir á grunsamlega grænum bíl. Þið látið kannski einhvern fullorðinn vita.....
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 04:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
11.6.2007
Var að horfa á....
.....Heroes. Þar var kona sem sættist við spegilmynd sína.....
.....mættu fleiri taka hana sér til fyrirmyndar
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.6.2007
Á morgun kemur nýr dagur!!!
Þessi mynd er tekin af mér í morgun þar sem ég stend vansvefta, úrill og utan við mig.....
....svaf tvo tíma í nótt. Nóttin hófst á því að ég byrjaði að lesa afspyrnuleiðinlega bók, það dugði nú aldeilis ekki til að mig syfjaði, þannig að ég lá og bylti mér í tvo tíma, fór þá fram og fékk mér rauðvínsdreitil til að ná fram minni innri ró, drakk hann og horfði út um eldhúsgluggann minn á leikhús lífsins - þar er alltaf eitthvað að ske. Sá til dæmis lögregluna að störfum....... Fór síðan aftur upp í rúm þegar ég fann að yfir mig hvolfdist þreytan og steinsofnaði.... í heilar þrjátíu mínútur, þá datt geðsjúklingi úr Hveragerði í hug að upplagt væri að sópa bílaplanið hjá Bónus á Selfossi með þar til gerðri græju og tilheyrandi hávaða!!!!! Sem ég hrökk upp og fátaði í geðvonzkukasti eftir símanum til að hringja í laganna verði og láta þá fjarlægja manninn OG græjuna helst til frambúðar, datt mér í hug að réttara væri kannski að hringja í Bónus í fyrramálið og byrja á því að tilsegja manninn þar. Þetta er nefnilega ekki í fyrsta, ekki í annað og ekki í þriðja sinn sem hann gerir þetta!
Veit ekki hvort hann á eitthvað óuppgert við Selfyssinga yfirleitt, nú var alltaf talsverður rígur á milli þessara bæjarfélaga í gamla daga, kannski stal einhver frá Selfossi kærustunni hans? Kannski hló ég hæðnislega upp í opið geðið á honum þegar hann var að stíga í vænginn við mig í denn? Hver veit.......????
Allavega ef Jóhannes í Bónus les þetta þá skuldar hann mér þrjá mánuði í matarinnkaupum!!!
Ætla snemma að sofa í kvöld, þó fjögurra tíma svefn, í nótt, myndi nægja til að ég vakni stálslegin og útsofin - kem ábyggilega til með að sitja og prjóna fram yfir miðnætti og hugsa til danans sem sagði við okkur systur í gamla daga þegar við heimsóttum danaveldi með ærslum og óhljóðum og var boðið í teiti klukkan fimm um morguninn: "Þið getið sofið þegar þið eruð orðnar gamlar"
Eint óld jett!!
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.5.2007
Þjóðhátíðardagur norðmanna....
....fór í langan labbitúr með labbakút, í roki og rigningu, hann öslaði mýri og drullu upp að efri herðablöðum og þótti þetta verulega skemmtileg ferð. Hvernig stendur á því að eftir því sem veðrið er verra finnst hundum skemmtilegra úti? En hvað gerir kona ekki fyrir þá sem þykja svona skilyrðislaust vænt um hana?
Kom svo heim og bakaði köku í tilefni þjóðhátíðardags norðmanna
Nú er litli kútur kominn í ró, Dr. House, einn af mörgum uppáhaldsmönnum í lífi mínu, er á leiðinni, líklega er hann á háheiðinni..... búin að mála mig, renna smá hvítvínslögg í glas og bíð nú bara spennt.
Getum ekki haft frí á öllum þjóðhátíðardögum - globalt?
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)