Færsluflokkur: Dægurmál

Kartöflugarðar á Korpúlfsstöðum

https://www.reykjavik.is/frettir/opnad-fyrir-umsoknir-um-matjurtagarda?fbclid=IwAR1NuNZB1HHziu_QcWkkBZuSA2L_KtKcpkfMjFERR6SmOqXI6I19wrmbPkw

Þessi frétt, ef frétt skyldi kalla minnti mig á sumarið sem ég, frekar hróðug, leigði mér kartöflugarð á Korpúlfsstoðum af Reykjavíkurborg.

Þar setti ég niður kartöfluútsæði og mætti síðan samviskusamlega allt sumarið og reitti arfa úr reitnum mínum og horði á kaartöflugrösin stækka og grænka með hverri vikunni sem leið. 

Svo kom haustið og ég varð mér úti um gaffal í yfirsstærð til að taka kartöflurnar mínar upp. Fór svo eitt kvöldið á mínum eðalbíl, sem var um þessar mundir Volkswagen bjalla rauð að lit með svörtum sportröndum á hliðunum og skottið þar sem vélin er í öðrum bílum og vice versa en það er nú önnur saga. Ég mætti sumsé eitt ágústkvöld á Korpúlsstaði til að uppskera strit sumarsins og sé þá hvar stendur maður á miðjum aldri í reitnum "mínum" og er að klára að taka upp síðuðstu kartöflurnar. Mér féllust hendur eitt augnablik og ætlaði að storma að gaurnum og hreinlega hjóla í hann enda illa staðinn að verki fannst mér - opnaði samt hanskahólfið á rauðu bjöllunni minni - bara svona til öryggis og kíkti á númerið á kartöflureitnum sem ég hafði til leigu og sá þá að það var reiturinn við hliðina á manninum sem þegar hér var komið sögu var að ganga frá dótinu sínu í skottið á sínum bíl. 

Það var ekki mikil gleði að taka upp þær fáu kartöflur sem höfðu lifað arfasumarið mikla af. Því vitaskuld hafði ég reitt arfann í kartöflugarði mannsins sem hróðugur keyrði burt þetta kvöld með sína uppskeru og sagði ekki einu sinni svei attan!

Síðan hef ég ekki haft mikinn áhuga á garðrækt.


Þessi pistill mun að öllum líkindum fjalla um Guð, Jesú, Maríu og Jósef....

.... því ég var að syngja í helgistund í kirkjunni og á milli sálma var lesið úr guðspjallinu. Ég heyrði nú ekki betur en María hafi haft ponsu efasemdir þarna um árið ef marka má þennan texta þar sem María segir við engilinn þegar hann er að boða henni að hún myndi verða ólétt - af Jesú muniði!"Hvernig má þetta verða þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?"

En þessi lestur rifjaði upp fyrir mér þegar ég fór í krabbameinsskoðun hér um árið - já já vegir guðs eru órannsakanlegir og vegir hugsana minna líka..... en ég sumsé skellt mér í krabbameinsskoðun eins og ekkert væri og fékk bréf nokkru síðar þar sem mér var sagt að hypja mig strax aftur í skoðun vegna þess að ég hefði greinst með frumubreytingar. Ég náttúrulega hlýddi því eins og öðru og læknirinn sem tók á móti mér byrjaði á að ávíta mig fyrir að hafa látið fjögur ár líða á milli skoðana - en ég skýrði út fyrir honum að tíminn í sveitinni liði miklu hraðar en í borginni þannig að þetta væri eins og í laginu þarna.... og þúsund ár dagur ei meir. 

Læknirinn sá að hann kæmist ekkert áfram með mig á þessari braut þannig að hann tilkynnti mér að ég hefði greinst með frumubreytingar af gerðinni HPV - hann sá fljótlega að ég var engu nær og fór að segja mér hvernig veiran atarna sýkir konur... og jújú það var rétt giskað hjá ykkur - við samfarir... Þarna náði hann mér og ég spurði hann með þjósti hvort það væri þá ekki lágmark að hafa samfarir svo þessi veira næði að dreifa sér? Það kom aðeins á hann og hann kíkti í rapportið eða hvað hún nú heitir þessi skýrsla sem læknar hafa á borðinu fyrir framan sig og benti mér siðan á að ég ætti jú tvö börn. 

Og þá spurði ég hann hvort hann hefði aldrei heyrt talað um Maríu Mey og Jesúbarnið! Ég var harðákveðin - og er enn - í að bakka ekki út úr minni sögu með samræðið á núlli! 

 


Endur fyrir löngu..

..þegar ég var nýkomin með bílpróf, var ég að keyra uppi í sveit þegar vegalöggan stoppaði mig. Já - Vegalöggan - sagan byrjaði jú á: "Endur fyrir löngu..." Muniði eftir vegalöggunni? Það var svona lögga sem keyrði þjóðvegina. Þeir voru á öðruvísi bílum og allt. En sumsé þar sem ég keyrði þjóðveginn, sem var ekki einu sinni malbikaður, mætti ég vegalöggunni og þeir flippuðu ljósunum á mig sem þýddi að þeir vildu að ég stoppaði. Mér brá ógurlega, negldi niður á miðjum veginum, þannig að þeir urðu að stoppa hálfir úti í skurði, vippaði mér út og gargaði á þá: "Hvað á það að þýða að vera að stoppa mann hér, langt uppi í sveit um há bjartan dag?" Það varð eitthvað fátt  um svör frá þeim og síðan hef ég ekki verið stoppuð hvorki af vegalöggu né öðrum löggum. Ég hef grun um að uppi á vegg á skrifstofu Vegalöggunnar hangi mynd af mér með svona striki yfir... þið vitið - svona... hunde må ikke medtages striki. Ég get hins vegar ekki ímyndað mér hvar þessi skrifstofa er núna og hjá hverjum myndin hangir.

En þetta var nú bara svona útúrdúr. Ég hef verið að vinna á Bókasafninu í Þorlákshöfn í sumar. Þetta er, held ég, einhver sú skemmtilegasta vinna sem ég hef unnið en nú er skólinn hafinn á nýjan leik og ég sit í strætó og bíð spennt eftir að strætókonan segi: Næsta stopp er Háskóli Íslands :)

Farþegunum bregst ekki bogalistin að halda upp skemmtuninni og ég held ótrauðáfram að safna efni í bókina: Ég og skrýtna fólkið í Strætó.

Lífið er bjútífúl. 


Þannig var...

...að ég er að jafna mig eftir smá aðgerð sem ég þurfti að fara í og það vill svo vel til að það fer saman við það að ég er líka að bíða eftir að byrja í sumarvinnunni Smile Eníveis.... það fer einatt saman hjá mér að vera orðin sæmilega hress eftir veikindi og ferlega pirruð. Ég var til dæmis farin að þróa það að vera virk á kommentakerfinu feis to feis. Það fer þannig fram, fyrir ykkur sem ekki lentuð í mér, að ég læt alla heyra það algjörlega óþvegið. Ef til dæmis gengi hjá ungur drengur í frakka með beltið ólað upp að herðablöðum myndi ég ekki hika við að opna gluggann og góla á eftir honum að hann væri alls ekki smart.... eða ef ég keyrði fram hjá bíl með stýrið vinstra megin - þá skrúfaði ég niður rúðuna og galaði á bílstjórann að stýrið væri vitlausu megin... En málið í þetta sinn var að þrátt fyrir sæmilega uppbyggingingu á pirringi og leiða var ég alls ekki orðin nógu hress til að gera nokkuð af viti. Ég er að segja ykkur, svæfing fer illa með fólk.

 

2013-05-22 15.15.54

Hvað gera konur þá? Fara á bókasafnið - vitaskuld. Það rifjaðist nefnilega upp fyrir mér sagan af fólkinu sem bjó á Heiðinni í mörg ár. Ég hélt að vísu lengi vel að karlinn hefði búið þar einn og það var ekki fyrr en nýlega að ég vissi að konan hans hefði búið þar með honum. Þau fluttu þangað úr Blesugrófinni þegar borgin lét leggja veg upp í Breiðholt og húsið þeirra var fyrir. Borgin bauð þeim blokkaríbúð í skiptum fyrir húsið en karlinn var þrjózkari en allt sem þrjózkt er og ákvað að þau flyttu frekar upp í fjall.... Eitthvað á þessa leið hljómaði sagan sem ég heyrði um þau á sínum tíma. Ég las söguna í bókinni og hún hreyfði svo við mér, sérstaklega snerti mig saga Blómeyjar, en það hét hún kona Spámannsins á Fellinu, að mér fannst ég þurfa að fara uppeftir og reyna að finna rústirnar af bænum sem hann byggði þeim. Fjallganga er líka ágætis mælikvarði á það hvar kona er stödd í ferlinu að ná heilsu.  

Ég mæli með því að þið lesið þessa bók. Hún heitir Mannlífsstiklur og sagan heitir Spámaðurinn á Fellinu eftir Ómar Ragnarsson. Ég sendi Ómari náttúrulega póst þegar ég fór að grúska í þessu - mikill er máttur internetsins - og hann sagði mér líka að hann hefði tekið hálftíma viðtal við Blómey, þetta viðtal væri til niðr´í RÚV og hefði einhverra hluta vegna aldrei verið sýnt.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég væri meira en til í að sjá það viðtal þannig að ef þið þekkið einhvern í RÚV......

Á leiðinni heim heyrði ég svo í fréttum að fólk væri heimskara en það var á Viktoríutímabilinu - ástæða þessarar forheimskunnar væri að konur með háa greindarvísitölu eignuðust færri börn en áður og það, gott fólk, er að öllum líkindum ástæðan fyrir því að ég á bara tvö..... 

2013-05-22 15.11.10

 

 


ég man ekki....

....hvort ég hef sagt ykkur það - ég segi ykkur það þá bara aftur, þið hafið gaman af því - en ég er svag fyrir öllu sem danskt er. Ég hef, í gegnum tíðina haldið því fram að ég hafi fæðst í en forkert faderland Tounge en það er nú önnur saga sem ég segi ykkur hugsanlega undir svefninn þegar þið eruð orðin stærri.

En sumsé, svo ég haldi mig við upphaflegu söguna, þá fór ég einu sinni í fjallgöngu á Heklu - ég var í góðum félagsskap dana - kemur á óvart? Við villtumst aðeins enda ekki á hverjum degi sem maður fer á Heklu og alla leið frá Vegamótum var ég að segja honum hryllingssögur af því þegar Hekla gýs. Þá byrji hún sko bara en to tre og maður eigi fótum fjör að launa. Hæsta lagi korter sem séu til ráðstöfunar og á þeim tíma þarf að taka tillit til í hvaða átt hraunstraumurinn rennur. Hann lét sér fátt um finnast - enda vanur öllum mínum lygasögum stórum sem smáum. Ég hafði jú einhvern tíma sagt honum að beygja til hægri þegar ég meinti vinstri og allt hvað eina. En allavega við komum að Heklu og lögðum í hann. Það var rok - ískuldi og bara hreint ekkert spes veður en upp héldum við algjörlega ótrauð. Þegar við vorum komin ríflega upp fyrir miðju byrjar Hekla að rymja. Ég lýg því ekki - það rumdi óhræsilega í henni. Ég snarstoppaði - henti nestinu út í veður og vind og snérist á hæli og byrjaði að skokka niður. Leit aldrei um öxl - ekki fyrr en ég fattaði að danskurinn var með bíllyklana. 


Mannvonskuveður

Ég læddist út á strætóstoppistöð  rétt rífleg sex í morgun - eða slagaði öllu heldur. Þegar ég kom fyrir húshornið missti ég andann, tilfinningin var eins og að hoppa í ískalda laug - og trúðu mér - ég hef hoppað í ískalda laug. Þar sem ég hímdi eins og hver önnur hryssa í skjóli við benzíntank, renndi bíll upp að mér, skrúfaði niður rúðuna og kona hrópaði út í myrkrið: "Hrönn! Viltu ekki bíða inni í bíl'" Ég veit ekki ennþá hvaða kona þetta er Cool Svo kom strætó eftir djúpan disk og bílstjórinn sagði mér að hann færi ekki þessa ferð, Heiðin væri lokuð og útlitið ekki bjart. Maður konunnar í bílnum skutlaði mér heim, alla ellefu metrana og það var svo blint að ég var ekki viss um hvar ég ætti heima ToungeAlgerlega ýkjulaust!

Það settist maður við hliðina á mér í strætó um daginn - ég var frekar vant við látin að búa til sögur um fólk í strætó en tók þó eftir því að þetta var myndarmaður - þegar ég svo stóð upp til að yfirgefa vagninn við HÍ - var ég komin svo langt í ævintýrinu að ég var næstum búin að kyssa hann bless. Sá held ég hefði orðið hissa Sideways 

Staðan í dag er semsagt þannig að ég sit heima og les, skólabækur vitaskuld úr því ég komst ekki í ævintýrin í strætó, og vona að svo fáir hafi mætt í tíma í morgun að kennarinn endurtaki fyrirlestur dagsins í næsta tíma.


Strætóskólablogg

Ég tek strætó í skólann. Það er svakalega þægilegur ferðamáti - um daginn steinsofnaði ég og dreymdi að ég væri komin til Trindidad og Tobacco Sideways

Það er líka svo gaman að stúdera fólk í strætó - einn daginn var svakaleg hálka í minni sveit, þá örlaði á pirringi hjá sumum farþegum og þeir höfðu á orði að strætó ætti að halda áætlun. Bílstjórinn reddaði því nú, og var snöggur að - hann bað alla strætó í Mjódd að bíða eftir okkur Cool Annan dag var fullur kall með í för, bílstjórinn hótaði honum að hann mundi hringja á lögguna ef hann færi ekki að haga sér skikkanlega.... fulla kallinum var alveg sama. Enn annan dag voru tvær eldir konur að reima sig í strætó - þig megið gizka á hvað þær voru að gera Joyful Hápunktur hverrar strætóferðar er þó þegar ég er komin niður á Hringbraut og leiðakerfiskonan segir "næsta stopp er... Háskóli Íslands". Þá finn ég hvernig ég byrja að brosa öll - fyrst inn í mér og svo breiðist brosið út. Stundum lofa ég samt öðrum að dingla stopputakkanum. Hugsanlega eru fleiri jafnánægðir og ég að vera í HÍ Happy


Háskóli Íslands

Ég dró andann djúpt og fylltist lotningu þegar ég steig inn fyrir dyrnar í Odda í morgun í fyrsta skipti á ævinni og í fyrsta skipti sem ég stíg fæti inn fyrir HÍ sem nemandi.

Ég var að hugsa um að biðja manninn fyrir framan mig að taka mynd en lagði ekki í það enda strunsaði hann inn eins og hann væri búinn að vinna þarna í mööööörg ár og ekkert væri sjálfsagðara en að ganga inn um þessar dyr.

Gaman að segja frá því að fyrsta manneskjan sem ég hitti var Marta Heart það spillti nú ekki ánægju dagsins. Ég fékk mér te með henni og sagði frá því að ég hefði nánast ekkert sofið og því síður borðað af spenningi síðan ég var samþykkt inn í Háskólann. Þetta endar með því að ég verð há og grönn - verst að baugarnir koma til með að ná niður að hnjám.

Ég er enn í skýjunum yfir að vera orðin nemandi við Háskóla Íslands - langþráð markmið loks í höfn - og ætla mér svo sannarlega að njóta þessarar tilfinningar á meðan hún endist mér.

Rosalega er ég ánægð. 


Græn orka um áramót.

Ég var að hugsa, í nótt þar sem ég lá andvaka, um alla þessa hreinsunar- og heilsukúra sem eru í tízku um áramót. Einhverjir borða og drekka bara það sem er grænt - og þá á ég ekki við gamalt kjöt frá jólunum - aðrir drekka heitt vatn með sítrónusafa og sumir drekka heitt vatn með engifer svo las ég um daginn að þorskalýsi væri gott fyrir liðina. Einhverjir ganga svo langt í áramótahreinsunum að fara alla leið til Póllands í allsherjarhreinsun. Allt þetta les ég andaktug og kinka kolli um leið og ég hugsa: "já, þetta ætla ég líka að gera, þetta er sniðugt...." nema þetta með Pólland, svo langt geng ég ekki. Ef ég fer til Póllands einhverntíma þá verður sú ferð farin til að upplifa matarmenningu og horfa á arkitektúrinn þeirra, en það er nú önnur saga.

Það er bara einn galli, eða kannski ég ætti fremur að kalla það hæng, á þessu heilsufári öllu. Þetta byggist allt á því að það líði amk. klukkutími frá inntöku þar til innbyrða má morgunmat og þar kem ég að því sem ég var að hugsa í nótt. Því ef ég ætla að framkvæma alla þessa gjörninga og láta alltaf líða klukkutíma á milli þá reiknast mér til að fólk þurfi að vakna um þrjúleytið á morgnana sem er ansi snemmt og ég var jafnvel orðin of sein þar sem ég lá og bylti mér í nótt. Við vitum líka öll að svefn er svo nauðsynlegur fyrir heilsuna að ég tali nú ekki um útlitið.

En eins og segir í einhverri bók - örvæntið eigi - ég datt niður á lausnina. Ég blanda bara öllu saman í einn ógeðsdrykk og málið er dautt Sideways


Stytta í miðborg Finnlands

Ég var að klára ellefta af þeim tólf prófum sem ég þarf að taka til að vera gjaldgeng í Háskóla Íslands Sideways

Hvern hefði grunað þetta þegar ég lagði með hálfum hug upp í langferð að ígildi stúdentsprófs um áramótin síðustu?

Ég segi nú bara það var eins gott að ég vissi ekki hvað lá fyrir mér þegar ég lagði upp. Ég bara stökk í skaflinn og byrjaði að moka en nú sé ég í gegn. Erfitt á köflum og stundum hefði ég verið við það að gefast upp - ef ég hefði leyft mér það. Ég sagði til dæmis dönskukennaranum að vinnufélagar mínir hefðu áhyggjur af að ég væri að lesa yfir mig og þá finndist þeim ég ekki lengur vidunderlig men kun underlig. Hún flissaði bara.

Í morgun var ég í söguprófi - þar sem áttu að koma og komu m.a. skilgreiningar á hugtökum. Ég er eins og uppflettirit í hugtökum eftir törnina. Fyrir nú utan heimsstyrjöldina fyrri og Stalín með sína bolsévika. Mér hefði aldrei dottið í hug að mér gæti þótt saga skemmtileg. Hélt að þetta væru ekkert nema ártöl og dauðir kallar. Sem það svosem er lika............

....hugsanlega er ég gefin fyrir dauða kalla Tounge Ég var þó við það að örvænta á köflum í áfanganum - sérstaklega þegar ég uppgötvaði að það eina sem sat í mér eftir fyrirlestra kennarans voru mismæli hans, sem ég skemmti mér náttúrulega konunglega yfir, og annað í þeim dúr sem mætti flokka undir þessar ónauðsynlegu upplýsingar... þið vitið... Eins og andlátsorð Von Shcliefen greifa og heimsspeki Stalins. Ég er þó ánægð með að ég náði að tengja úr öllum þessum useless info í það sem skipti máli.

Allavega, ég er búin að skila inn umsókn í HÍ - hvar ég ætla að setjast mjög andaktug á bekk eftir áramót og læra meira og meira. Það eina sem ég ekki skil í rauninni er hvers vegna ég var ekki lööngu byrjuð á þessu. Þetta er svo gaman Wizard 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.