Færsluflokkur: Dútl heima við

Stefnir í verklok og stormur í aðsigi.

Komst yfir að klára það sem ég ætlaði mér í dag, þrátt fyrir að hafa skriðið aftur upp í rúm eftir morgungönguna með stubbaling, og steinsofnað, vaknaði ekki fyrr en klukkan var að verða eitt. Skal nú viðurkenna að mér brá aðeins.

Nú get ég, og er reyndar byrjuð að bera dót inn í nýmálaða herbergið, bókastofuna eins og ég kýs að kalla það, eða á viðhafnardögum, koníaksstofuna LoL Ef einhver á gamlan standlampa sem hann langar að losna við, þá hef ég not fyrir hann!

Vindurinn hvín og blæs eins og í ævintýri eftir Thorbjorn Egner og það rignir af austan! Það skeður nú ekki oft skal ég segja ykkur, en jafngott samt að fá rúðurnar þvegnar þeim megin.....

Skráði mig á námskeið í næsta mánuði í endurmenntunarstofnun HÍ. Hagnýt danska heitir það og mér er lofað að þegar því lýkur tali ég dönsku með hreim.... Samt ekkert sagt um hvaða hreim!! Halo

Stubbalingur steinsefur, dauðþreyttur eftir átök dagsins, ég er búin að kveikja á kertum og sit og sötra rauðvín. Ég á það skilið! Ætlaði að hafa það notalegt og horfa á sjónvarpið, en það er þá bara ekkert í því. Ekki fyrr en seint og um síðir. Ætli ég verði ekki sofnuð þá? Mætti segja mér það. Það viðrar vel til svefns. Ætli það endi ekki með því að ég slökkvi á kertum, nýti mér tæknina og stilli á upptöku og skríði undir sæng. Er að lesa hörkugóða bók sem heitir "Sumarljós og svo kemur nóttin", eftir Jón Kalman Stefánsson mér var lánuð þessi bók og sagt að ég yrði að lesa hana og ég náttúrulega geri allt sem mér er sagt......

InLove


Sögur úr sveitinni.....

Fór til læknis í gær að fá niðurstöður úr blóðprufu og láta mæla blóðþrýsting. Allt svona glimrandi gott úr blóðprufunni - einna helst að hann vildi fá mig til að minnka gleðipilluskammtinn. Auðvitað lét ég það eftir honum, hann er læknirinn og myndarlegur líka.......

Það þýðir að á morgun tek ég bara eina töflu í stað tveggja sem ég tek daglega! Kvíði svolítið fyrir. Þetta eru töflur fyrir skjaldkirtil en hann var tekinn úr mér árið sem ég skildi...... Tounge Ekki amalegur missir það. Á einu bretti missti ég mann og skjaldkirtil og sakna hvorugs! Eníveis, allar breytingar á töflumagni þýða það að ég verð eins og spýtukerling - gæti verið systir Gosa.

Á meðan læknirinn var að mæla blóðþrýstinginn sagði ég honum sögur. Hann hummaði og jammaði og þóttist alveg hafa áhuga á því sem ég var að segja en endaði svo á því að segja mér að þegja W00t ég hefði svo truflandi áhrif á blóðþrýstinginn - og hann var að tala um minn þrýsting, ekki sinn. Það var nú ekki laust við að mér sárnaði.

Er búin að mála herbergið - drengurinn ljúfi - málaði loftið fyrir mömmu sína. Þrisvar!! Nú þarf ég bara að spreða sílíkoni í rifur sem ég kom auga á hjá listum í lofti á meðan ég málaði veggina. Allt annað að sjá herbergið sem héðan í frá verður kallað Austursalur.

Sótti mömmu út á flugvöll í gær. Hún var að koma frá Spáni. Búin að vera þar í þrjár vikur. Uppgötvaði um leið og ég sá hana, hvað ég hafði saknað hennnar. Knúsaði hana og sagði henni frá því. Er ekki frá því að pabbi gamli hafi saknað hennar jafnmikið - allavega brosti hann eins og sól í heiði allan tímann á meðan við biðum í flugstöðinni. Komst svo heim rétt á undan sendibílnum sem fauk undir fjallinu í gær. Hrikalegt rok. Ætlaði að taka myndavélina mína með og taka myndir af briminu við Vatnsleysuströnd, senda íbúum þar og spyrja þá af hverju þeir kalla þessa strönd Vatnsleysuströnd en steingleymdi myndavélinni. Þannig að þetta djók verður að bíða betri tíma.

Ég veit hinsvegar af hverju þessi strönd heitir Vatnsleysuströnd! Það er vegna þess að í gamla daga var vatnsból í Kúagerði og síðan ekkert vatn þar til í Grindavík. Þá vitið þið það líka......

60 ára afmæli Selfosshrepps verður haldið hátíðlegt um helgina. Heilmikið um að vera og skrúðganga á eftir. Íbúar eru hvattir til að skreyta eins og vera ber í afmæli. Öll hverfi fengu úthlutað einum lit til að skreyta með og ég var svo stálheppin að mínu hverfi var úthlutað appelsínugulum lit, sem er uppáhaldsliturinn minn, þannig að nú fer ég og hengi út öll appelsínugulu fötin mín. Viðra appelsínugula rúmteppið mitt og hef að sjálfsögðu kveikt á appelsínugula lampanum í eldhúsglugganum.

Fer svo síðar og hirði verðlaunin fyrir bezt skreytta húsið LoL

 


Þá er komið að því....

....búin að teipa, skera, skáa og hvað þetta nú allt saman heitir. Nú get ég farið að rúlla. Mér finnst ekkert leiðinlegt að mála, ef einhver gæti bara séð um undirbúninginn og tekið svo saman á eftir. Ég ætti kannski að gerast iðnaðarmaður?

Ég var meira að segja svo fagleg að ég skrúfaði allar festingar úr gluggum og veggjum, til dæmis festingar fyrir rimlagardínur sem ég hef hingað til bara málað í kringum. Fékk lánaða litla borvél og hvílíkt tækniundur. Elska svona græjur sem ganga fyrir batteríum.............

Nú heyri ég að himneskir tónar Hvítasunnukórsins berast inn um gluggana hjá mér. Bezt ég nýti þá á meðan ég mála!

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband