Færsluflokkur: Fordómar og spéhræðsla
16.7.2007
Ókunnug kona frá framandi landi
Á blogginu í dag verður mörgum tíðrætt um fordóma.
Af því tilefni rifaðist upp fyrir mér þegar ég hitti núverandi mágkonu mína í fyrsta sinn án þess að það hafi nokkuð sérstakt að gera með fordóma annað en það að hún verður stundum fyrir þeim.
Elizabeth og Eyfi hittust í Frakklandi þegar þau voru þar bæði í námi. Eyfi kom heim um sumarið og vann við að leiðasaga Frakka um landið. Var í viku til 10 daga ferðum í senn. Elizabeth kom í heimsókn seinni part sumars. Hún bjó hjá pabba og mömmu en þau voru bæði í vinnu og Eyfi var nýlagður af stað í hringferð með Frakka.
Það vildi þannig til að ég var í sumarfríi og tók að mér að hafa ofan af fyrir henni. Ég var með smá kvíðahnút í maganum. Vissi ekki alveg hvernig ég átti að fara að því að hafa samskipti við þessa stúlku sem ég hafði aldrei séð áður. Ég talaði ekkert sérstaklega góða ensku á þeim tíma og hún ekki heldur. Ég talaði enga spænsku á þeim tíma en hún er hins vegar talsvert sleip í henni Ég safnaði kjarki og fór á Engjaveginn eftir hádegi daginn eftir að hún kom á Selfoss. Gekk inn í eldhúsið og þar sat hún, svo gullfalleg og geislandi. Henni hefur ábyggilega kviðið jafnmikið fyrir að hitta mig..........
Ég bað hana að koma með mér heim með fransk/ísl - ísl/franska orðabók að vopni og saman stautuðum við okkur í gegnum daginn og næstu daga...... Við vorum ekkert rosalega fljótar að klára setningarnar og þær voru kannski ekkert svakalega innihaldsríkar - en við töluðum, við drukkum kaffi og við hlógum hvor að annarri og hvor við annarri.
Síðan höfum við verið beztu vinkonur og mikið lifandi skelfing væri lífið miklu litlausara ef ég þekki ekki Elizabeth og hennar framandi og frábæru menningu og matargerð. Vini henna hitti ég líka reglulega og mér er alveg sama þó þau tali spænsku þegar ég er viðstödd. Mér er líka alveg sama þó ég skilji ekki allt sem þau segja. Ég skil tóninn og heyri hrynjandann og næ inntakinu og svo tek ég þátt í samtalinu á íslensku. Stundum geri ég mig að fíbbli þegar ég reyni að tala við þau á spænsku en það er allt í lagi þá hlæja þau bara góðlátlega, klappa mér á bakið og leiðrétta mig. Alveg eins og ég geri fyrir þau.
Ég er afar þakklát fyrir að Elizabeth birtist í lífi mínu. Hún er falleg kona með fallega sál.
Fordómar og spéhræðsla | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)