14.9.2008
Shaken not (dis)turbed :)
Pólverjarnir í minni vinnu eru mér endalaus uppspretta gleði og ánægju! Þeir tala mismikla ensku - eins og gefur að skilja - og leitast við að aðstoða hvern annan eftir þörfum! Einn hringdi í mig um daginn og spurði mig hvort minn "nýji" yfirmaður hefði talað eitthvað við mig um childrens holliday!
Ég hugsaði, baki brotnu, og reyndi að tengja í allar áttir en varð að játa mig sigraða og sagði honum að: "nei, því miður, ég hefði ekkert heyrt um það..........."
En þeir gefast ekki upp! Nokkrum dögum síðar hringdi í mig sá af "mínum" Pólverjum sem hefur í gegnum tíðina annast hvað mestu samskiptin. Þeir tala við hann - hann talar við mig! Hann gat komið mér í skilning um hvað children holliday þýddi..... Símtalið endaði á þessum nótum: Ég: aaaaaaaa.... you are talking about children holliday......? Hann: Dobra, dobra!!
Í dag kom hann svo með nýja fjölskyldu til mín sem þurfti að fylla út ýmsa pappíra fyrir atvinnuleyfi og umsókn um kennitölu... Við flissuðum stanslaust á meðan ég talaði pólsku og hann íslensku.... Þau skildu svo eftir, í þakklætisskyni, Martini flösku og ég sem drekk ekki martini! Veit einhver númerið hjá Bond? James Bond.........? Er það dobbelOseven?
Ég eldaði í kvöld, af fingrum fram, bleikan fisk, sem mitt fyrrum kjallarakrútt gaf mér! Hann kom til mín um daginn og spurði hvort hann mætti tína orma í garðinum hjár mér! Ég sagði honum að það væri sko minnsta mál í heimi! Ormarnir kostuðu bara einn bleikan fisk! Ekki slæm vöruskipti það......... Hrikalega góður fiskur...... namm!! Með fiskinum eldaði ég að sjálfsögðu glansnýjar kartöflur sem ég tók upp úr garðinum........ Sem minnir mig á það! Ár kartöflunnar?? Ætti það ekki að merkja glás af kartöflum? Ég hef grun um að það hafi gleymst að segja útsæðinu í vor hvaða ár væri.....
Breytir þó ekki því að þær eru góðar - sérstaklega með smjöri og smá maldon..... slurp!!
Eruð þið að kveikja á childrens holliday?
13.9.2008
Grátandi lömb og jarmandi börn....
....eða var það hinssegin?
Vaknaði í býtið við sms frá Möggu þar sem hún kvaðst mundu verða fyrir utan hjá mér eftir klukkutíma í pollagalla! Ég sippaði mér fram úr og fór í minn pollagalla svo við værum nú í stíl - enda ausandi rigning úti Keyrðum síðan sem leið lá í réttirnar.
Þar var múgur og margmenni og mátti varla á milli sjá hvort var fleira af fólki eða fé. Ég tók gommu af myndum - ég sá svo marga sæta stráka sko..... sá líka nokkrar sætar stelpur en einhverra hluta vegna get ég ekki sett inn myndir núna! Heppin þar Ellen!!
Kom svo heim um hádegi og bakaði súkkulaði croissant a la Nigella. Náði einhvern tíma í endann á einum þætti hjá henni þar sem hún var að leggja lokahönd á þannig bakstur og síðan hefur mig eiginlega svotil óslitið langað í svoleiðis Ég svindlaði nú vitaskuld og keypti smjördeigið tilbúið til notkunar.... veit ekki hvort Nigella gerði það líka en mér þykir það ekkert ótrúlegt!
Mér hefur sýnst svona í gegnum tíðina að hún sé - eins og ég - ekkert að flækja hlutina óþarflega mikið...... Enda báðar í fyrsta flokki!! - Þarna er ég ööööörlítið undir réttarfarslegum áhrifum
Sat svo og las blöðin í fyrsta skipti í hálfan mánuð á meðan ég maulaði á góðgætinu og drakk kaffi með allt þar til mér svelgdist allsvakalega á! Ég kom að frétt um manninn þarna sem stakk Pólverjann og stakk svo af úr landi! Þar var talað við Björn Bjarnason og Stefán Eiríksson lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu sem var verulega önnum kafinn að koma sökinni á einhverja undirmenn sína! Gott að þiggja laun sem yfirmaður en þurfa enga ábyrgð að taka sem slíkur!!
Þar sannast enn og aftur hið forkveðna að ekki eru allir yfirmenn góðir menn og góðir menn eru ekki allir yfirmenn! Náttúrulega bara mest lýsandi fyrir þeirra eigins karaktera en þeir eru bara svo sorglega margir svona!! Sveiattan Einar Áskell hvað ég var fussandi hneyksluð. Ég jafnaði mig samt fljótlega eftir að ég fékk mér annan bita af croissantinu og fletti blaðinu þar til ég sá mynd og viðtal við "konuna hennar" Gurríar sem er staðráðin í að aðlagast Skagamönnum - hvernig sem það nú er hægt
Ég hef enga fordóma gagnvart fólki utan af landi! Sumir af mínum beztu landsbyggðamönnum eru vinir
12.9.2008
Réttarstaða lambs!
Það var ævintýrablær yfir öllu í skóginum í morgun þegar við læddumst létt á tá - ég og hinir vitleysingarnir.......... Þokan lúrði yfir dagrenningunni, allt var kyrrt og hljótt og mér leið eins og ég væri stödd í miðri hryllingsmynd, það vantaði bara eins og eina uglu á grein.....
Ég fékk alveg brilliant hugmynd þar sem ég rölti á eftir hundunum - ég ætla að finna upp box sem stækkar og minnkar eftir þörfum! Spáið í nýtingarmöguleikana!! Það væri hægt að nota eitt og sama boxið undir títuprjóna og ferðatösku. Maður þyrfti aldrei að hafa áhyggjur af því að koma ekki öllu sem keypt er í útlöndum í töskuna - hún bara vex! Svo þegar hún væri tæmd þá minnkar hún niðrí ekki neitt! Tekur ekkert pláss í geymslu! Svo mætti jafnvel útvíkka konseptið og framleiða boxin í mörgum litum! Svona ef ég ætla að vera virkilega væld Mér finnst þetta alveg hrikalega góð hugmynd. Jafnvel betri núna en í morgun......
Snaraði mér svo í sundleikfimi - kona þarf að vinna upp glataða tíma Ég held að það sé einlægur ásetningur Betu að ég fái massavöðva á maga, rass og læri - þetta endar með því að ég verð há og grönn
Ég þarf hreinlega að úða í mig mat allan daginn eftir tíma hjá henni - just in case ég hefði tapað einhverju af mínum dýrmætu grömmum!! Ég meina - ég er búin að vera lengi að safna......
Nú er yfir mér einhver værð! Ég er búin að raula, bæði innra með mér og upphátt, í allan dag einhvert ástarljóð sem ég man ekki einu sinni textann við........ En það gerir ekkert til ég bý hann bara til jafnóðum
Á morgun ætla ég í réttir! Horfa á aumingja litlu lömbin þar sem þau stökkva um alla rétt skelfingu lostin - hreint eins og lömb leidd til slátrunar............ og fulla kalla sem standa í hópum og syngja "Hvað er svo glatt.........."
Hver veit nema bíllinn sem hefur réttarstöðu grunaðs bíls í mínum huga verði þar.......? Hann er merktur Stútungasaga og ég er sannfærð um að hann keyrir litlu lömbin þangað sem má ekki segja........!
Vonandi snjóar ekki..........
11.9.2008
Rútínan
...tekin við! Sem er gott
Það var svartamyrkur og álfarnir sváfu englasvefni þegar ég gekk um skóginn með vitleysingana á heimilinu. Ég setti þau bæði í endurskinsvesti - þannig að þau litu út eins og lögregluhundar á vakt- á meðan ég þræddi stíginn í myrkrinu algjörlega varnarlaus! Eins gott að það var enginn á ferðinni Enda er nú fyrir mestu að þau álpist ekki fyrir bíl - það er nefnilega frekar þannig að bílar álpist fyrir mig.....
Svo tók sundleikfimin við, þar sem ég hamaðist eins og veðurviti í norðaustangarra og flissaði frekar ódömulega þegar Ásdís ítrekaði að við ættum að passa okkur á því að hafa rassinn fyrir aftan bak... Bætir - hressir - kætir! Var það ekki slagorðið fyrir opal? Passar vel fyrir sundleikfimina líka - gæti komið í staðinn fyrir bláan opal
Nú sofa hundar eins og hráviði um víðan völl - annar undir ofni og hinn út við hurð! Allt er í dúnalogni og ég er farin að vinna.
Þakka þeim sem hlýddu
10.9.2008
Hvernig er það....
....ég lít af ykkur í nokkra daga og þið týnið sumrinu!! Hafiði séð haustið sem læðist að? Gulir litir hvert sem ég lít..... Bónus til hægri handar og fölnuð lauf til vinstri handar..... eða er það öfugt....? Ég þakka bara fyrir að þið týnduð ekki gamanseminni líka..........
Ég er samt voða fegin á meðan ég sé ekki rautt......
Fór og tók upp nokkrar kartöflur! Nú verða hómmeid kartöflur í kvöldmatinn!! Namm..... verst hvað þær eru skítugar...... Hugsanlega set ég á þær krydd í tilveruna sem keypt var á Sítrónumarkaðinum og smyglað í gegnum tollinn! Hver veit.....
Klikkað að gera í vinnunni - sem er ágætt - það er þá ekki skollin á kreppa í minni sveit á meðan.
Fílgúd
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
9.9.2008
Ég var..
..rosa heppin með veður í þessari útilegu
Mér tókst að móðga fimm konur á einu bretti á markaði einn daginn! Fimm stykki - býður einhver betur? Bara vegna þess að ég vildi ekki kaupa af þeim tösku! Keypti hinsvegar eitt stykki af afskaplega alúðlegum dreng og borgaði honum fimm evrum meira fyrir en hann vildi fá..... Var að spá í að bakka og láta kellurnar vita af því - bara til að fá viðbrögðin - en það var of heitt.......
Ég grætti líka eina innfædda konu sem var að leita að kettinum sínum gráa! Hún kom og spurði hvort við hefðum séð hann og ég klappaði henni á öxlina og sagði nei.... bætti svo við - á íslenzku vitaskuld..... að vonandi finndi hún hann og þá gerði hún sér lítið fyrir og grét á öxlinni á mér og sagði mér.... á sínu móðurmáli.... að hann væri búinn að vera týndur í tvo daga! Ég sagði og talaði enn mitt móðurmál, um leið og ég strauk henni um bakið að ég hefði oft þessi áhrif á fólk! Það brysti bara í grát.......
Mottóið? Það skiptir ekki máli hvað það er sem þú segir - tónninn skilst
Ég hitti líka látbragðsleikara á Sítrónumarkaðinum - hvar annarsstaðar...? sem elti mig á röndum og endaði á því að leiða mig eftir markaðsgötunni! Ég sagði honum að hann skyldi nú fara varlega í þetta.... það væri ekki oft sem karlmenn opinberuðu hrifningu sína á mér svona mikið og svona opinberlega - það gæti endað með því að ég tæki hann með mér heim!
Nú ráfar hann um Austurveginn í rigningunni og enginn hefur tíma fyrir hann!
Ég ætlaði líka að taka heim með mér, í handfarangri, þjónustustúlku af veitingastað! Bæði vegna þess að hún tók lítið pláss og hentar þess vegna vel í innréttinguna og líka vegna þess að það að rétta upp hendi og segja "una cervesa pour favor" kemst ágætlega upp í vana. Ég ákvað bara að hleypa henni ekkert mikið út og segja alltaf við hana þegar ég færi út í búð "se vende" sem á skandinavísku þýddi vitaskuld: Bíddu hér.... en hún hefði ekki hugmynd um það!
Þá er það bara eitt að lokum! Hver söng "Galdurinn er að geta brosað, geta í hláturböndin tosað, getað hoppað hlegið sungið - endalaust! Hvaða ár og eftir hvern er textinn?
Þakka þeim sem hlýddu - góðar stundir
25.8.2008
Útilegur fyrr og nú!
Þegar ég var að taka til hér eftir skjálftann í maí fann ég ýmis konar pappíra.... þið vitið svona pappíra sem maður geymir for no reason at all
Eftirfarandi er einn af þeim pappír sem ég fann! Þetta er minnislisti fyrir útilegur, löööööngu fyrir tíma húsbíla, tjaldvagna og hjólhýsa......
Tjald, svefnpoka, dýnur, teppi, hamar - ég hef lengi verið svona.... lítið kærleiksljós
sóp, prímus, diskar, viskustykki, sápu, hnífapör, bursta, potta, kodda, stóla og borð, útvarp, hundinn, hundakeðju og ól - ég hef greinilega lengi átt hund.... - grill og grilltöng, eldspýtur, ljós, regnföt, sundföt - líklega ætlað fyrir meiri háttar rigningu - lopasokka, stígvél, húfur, vettlinga, hitabrúsa, lyf
- átta mig ekki alveg á þessum lið, líklega þó til að halda sönsum.... - flugnanet, tannbursta, tannkrem, krem, greiða, bursti, handklæði, þvottapoka, sápu, klemmur, plastpoka, krydd, myndavél, derhúfu, börnin - takið eftir, þau eru talin upp laaaangt á eftir hundinum, þetta heitir sko að forgangsraða....
manninn (af tillitssemi við minn fyrrverandi nefni ég ekki nafnið hans
) og góða skapið!
Nú ferðast ég létt - enginn maður! Ekkert gott skap
23.8.2008
Ójá...
Ég er í skýjunum!
Það er svo gaman að hlaupa í þessu hlaupi! Svo mikil stemmning... maður hittir svo marga..... hitti t.d. bezta vin minn til fjölda ára! Algjörlega óvæntur bónus á hlaupið! Þau stóðu (enn) hann og konan hans þegar ég nálgaðist endalínuna og hvöttu mig í mark Í einu orði sagt: FRÁBÆRT hlaup! Takk - þið öll sem hétuð á mig - ég er nefnilega ekki viðskiptavinur Glitnis þannig að bankinn greiddi mínu áheiti engan stuðning!
Fórum eftir hlaup heim til Eyfa bró sem eldaði kjötsúpu! Ekkert smá gott að fá eitthvað heitt í kroppinn eftir hlaup! Eins gott að hann var fyrstur í mark af okkur systkininum og gat drifið sig heim að hita upp súpuna! Við Magga fórum svo í heita pottinn í Vesturbæjarlaug þar sem allir virtust hafa verið að hlaupa og ræddu hástöfum um hlaupið og tímana sína. Nema sko við Magga.... við erum svo félagslega heftar....
Við tölum ekki við ókunnuga........
Ég bætti minn tíma um heilar tíu mínútur frá í fyrra þegar ég kom í mark um leið og fyrsti maraþonhlauparinn! Sjálfsagt hefur þar vegið þungt að ég hljóp með Röggu á hælunum.... Ég dokaði nú samt við eftir fyrsta maraþonhlauparanum í ár!! Svona til að sýna samkennd.
Spurning hvort sama tilfinning verður í gangi hans megin þegar ég kem fyrst í mark í maraþoninu eftir...... nokkur ár
Röltum svo í bæinn á eftir - það var ekki alveg nógu mikil stemmning þar. Sjálfsagt hefur rigningin spillt eitthvað fyrir. Ég fékk samt ókeypis faðmlag Að mér skeiðaði kona og spurði mig hvort ég væri að bíða eftir faðmlagi um leið og hún knúsaði mig........ Rosalega var það gott! Ég var mest hissa á sjálfri mér og sagði henni um leið og ég faðmaði hana á móti hvað mér þætti þetta gott!! Kannski ég sé að opnast á gamals aldri?
Læfisgúd
23.8.2008
Óskið..
..mér góðs gengis! Ég er að leggja í´ann!
Mér þætti vænt um ef þið hétuð á mig í hlaupinu. Það gerið þið með því að fara inn á marthon.is klikka á Reykjavíkurmaraþon og heita á hlaupara - slá inn nafnið mitt - ég hleyp fyrir ABC barnahjálp og heita á mig einhverri smáupphæð, sem verður síðan tekin út af kortinu ykkar þegar ég kem í mark!
Engin skylda en mér þætti vænt um það! Vitaskuld kemur mér til að þykja vænt um ykkur áfram þó þið heitið engu á mig - bara minna.......
Having fun - in the run
22.8.2008
Röð og regla!
Ég var að velta því fyrir mér áðan í röðinni í Bónus af hverju ég þurfi endilega að fara eftir sömu reglum og allir hinir? Af hverju er mér ekki hleypt fram fyrir alla og afgreidd fyrst? Veit ekki þetta fólk hvað minn tími er dýrmætur? Miklu dýrmætari en þeirra tími?
Svo þegar ég var á leiðinni heim - á bílnum - ég kom sko við í Bónus á leiðinni heim úr vinnunni...... Þá fór ég aftur að velta því fyrir mér af hverju ég þyrfti að fara eftir sömu umferðarreglum og allir hinir í umferðinni! Af hverju mátti ég ekki bara keyra eftir gangstéttinni þennan spöl heim? Það var hvort sem er enginn þar.......
Mikilmennskubrjálæði? Ég gæti verið frænka margra fyrrum borgarstjóra í Reykjavík og hefði bara hreint ekkert fyrir því Það rennur enda blátt blóð um æðar mér síðan Kong Christian stórafi minn reið hér um fyrir margt löngu! Svo blossar það svona upp öðru hvoru - með þessum afleiðingum
Á morgun þarf ég að vakna eldsnemma og bruna í bæinn til að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis - Hlakka ótrúlega mikið til! Að hlaupa alltsvo - ég vakna hvort sem er alltaf.......
Fílgúd